Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 8 milljarða en eftir fjármagnsliði  var rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 71,5 milljarð króna, samanborið við jákvæða niðurstöðu upp á 16,9 milljarða króna árið 2007.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en þegar talað er um samstæðu er átt við bæði A og B hluta í rekstri borgarinnar.

Í tilkynningu borgarinnar kemur fram að fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 10,1 milljarða tekjuafgangi og er rekstrarniðurstaðan því 81,6 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir.

„Viðsnúningur í rekstri skýrist einkum af reiknuðu gengistapi Orkuveitu Reykjavíkur sem nam um 93 milljörðum króna, auknum greiðslum vaxta og verðbóta,“ segir í tilkynningunni.

Heildareignir A og B hluta námu 388 milljörðum króna en voru í árslok 2007 um 314 milljarðar króna. Fastafjármunir námu um 359 milljörðum króna og veltufjármunir námu 29 milljörðum.

Heildarskuldir samstæðunnar voru um 272 milljarðar en námu í árslok 2007 um 155 milljörðum. Í tilkynningunni kemur fram að hækkun skulda skýrist einkum af gengisáhrifum, en þar af námu ný lán tæpum 29 milljörðum króna. Eigið fé var nær 116 milljarðar en var 159 milljarðar í árslok 2007.

Veltufé frá rekstri nam 15,2 milljörðum samanborið við 13,5 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Handbært fé frá rekstri nam 14,6 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 13,9 milljörðum. Handbært fé í árslok nam 12,2 milljörðum króna.

A hlutinn skilar hagnaði, annað árið í röð

Rekstrarniðurstaða A hluta Reykjavíkurborgar eftir fjármagnsliði var jákvæð um 2,3 milljarða á síðasta ári.

Rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar, A og B-hluta fyrir fjármagnsliði var jákvæð um rúmlega 8 milljarða en eftir fjármagnsliði var verulegur halli á rekstri borgarinnar, eða 71,5 milljarðar króna. Þetta útskýrist að mestu leyti af bágri rekstrarniðurstöðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2008.

Rekstrartekjur A hluta námu tæplega 59 milljörðum króna en áætlun gerði ráð fyrir 66,8 milljörðum. Þar af námu skatttekjur 50,9 milljörðum króna en þær voru 45,9 milljarðar árið 2007.

Þá námu rekstargjöld A hluta 56,7 milljörðum króna sem var um 2,5 milljörðum undir áætlun, sem að sögn borgarinnar skýrist að mestu af tekjufærslu á breytingu lífeyrisskuldbindingar um 1,1 milljarð í stað áætlunar um gjaldfærslu. Í tilkynningunni kemur fram að í heildina hafi launakostnaður A-hluta, þegar litið er framhjá breytingu lífeyrisskuldbindingar, verið 275 milljónir króna undir áætlun.

Annar rekstrarkostnaður og afskriftir voru 1.491 milljónir króna yfir áætlun, sem að sögn borgarinnar skýrist að hluta til af gjaldfærslu á móti auknum tekjum, t.d. vegna breytinga í húsaleigubótakerfinu.

Skuldir og skuldbindingar A hluta námu 31,6 milljarði króna en voru í árslok 2007 um 30,3 milljarðar. Lífeyrisskuldbinding A hluta nam í árslok 2008 tæpum 12 milljörðum króna en var 2007 tæpir 14 milljarðar króna. Eigið fé A hluta nam um 60,5 milljörðum króna en var árið 2007 um 58 milljarðar króna.

Veltufé frá rekstri nam 6,4 milljörðum samanborið við 5,4 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Handbært fé frá rekstri nam 6,2 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 5,4 milljörðum og handbært fé í árslok var 9,4 milljarðar króna.