Teymi [ TEYMI ] var rekið með 4,9 milljarða króna tapi á fyrsta fjórðungi ársins, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Lækkun krónunnar leiddi til 5,2 milljarða króna gengistaps á fjórðungnum en samtals námu fjármagnsgjöld 6,1 milljarði króna.

Tekjur félagsins námu 6 milljörðum króna á fjórðungnum, sem er 24% aukning frá fyrra ári en 9% pro-forma aukning. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, nam 1 milljarði króna, sem er 28% aukning frá fyrra ári en 11% pro-forma aukning. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta, EBIT, nam rúmum hálfum milljarði króna.

Forstjóri ánægður með vöxt tekna og EBITDA

Í tilkynningu er eftirfarandi haft eftir Árna Pétri Jónssyni forstjóra Teymis: „Við erum mjög ánægð með vöxt tekna og EBITDA afkomu fyrsta ársfjórðungs. Sala tímabilsins er í samræmi við væntingar okkar og EBITDA afkoma yfir væntingum og EBITDA hlutfall okkar er að vaxa milli ára. Sjóðstreymið er jafnframt mjög sterkt.  Rekstrarhorfur Teymis eru góðar á árinu 2008. Gengisfall íslensku krónunnar olli okkur verulegu tjóni á ársfjórðungnum og leiddi til hækkunar á vaxtaberandi skuldum.  Líkt og mörg önnur félög hér á landi hefur Teymi áhyggjur af sveiflum á íslensku krónunni og háu vaxtastigi.“

Eiginfjárhlutfallið 19%

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 859 m.kr. en eftir greidda vexti og skatta 537 m.kr. Veltufjárhlutfall var 1,11 í lok mars 2008 og eiginfjárhlutfall 19% á sama tíma.

Nánar verður fjallað um uppgjör Teymis á vb.is á morgun.