Spár greiningadeilda bankanna eru ólíkar varðandi þróun gengis krónunnar á árinu. Eins og fram kom í Greiningu Íslandsbanka í dag hækkaði krónan verulega í desember síðastliðnum og er nokkuð sterk núna. Sú þróun kom á óvart.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir í samtali við VB.is að Greining hafi merkt ákveðnar árstíðarsveiflur á liðnum árum. Krónan hafi veikst frá seinni hluta sumars fram að jólum. Hún hafi svo verið veikust á fyrstu mánuðum ársins en svo styrkst undir vor þegar ferðamenn fóru að streyma til landsins. Núna í vetur hafi þróunin verið ólík því sem var. „Hún veiktist upp úr miðju ári en veikingin var miklu hægari heldur en verið hefur,“ segir Jón Bjarki. Síðustu sex vikurnar hafi krónan svo óvænt styrkst um 4%.

Nokkrar tiltækar skýringar
Jón Bjarki segir að þessar breytingar eigi sér nokkrar skýringar. Meðal annars minni afborganir fyrirtækja og opinberra aðila þennan vetur en veturna á undan. Nefnir hann sem dæmi sveitarfélög og Orkuveitu Reykjavíkur. „Ég held að það sé alveg greinilegt að þetta setti svip sinn á gjaldeyrismarkaði alveg frá haustinu 2012 og fram eftir vetri í fyrra,“ segir Jón Bjarki. Í öðru lagi hafi Landsbankinn verið með gjaldeyrisójöfnuð í upphafi síðasta árs. Gjaldeyrisskuldir hafi þá verið hærri en gjaldeyriseignir. Þessi staða hafi nú snúist við.

Í þriðja lagi sé sterkara gjaldeyrisinnflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta, einkum vegna aukins ferðamannastraums. „Þegar maður leggur þetta allt saman er ekkert skrýtið þó að krónan sé sterkari núna. Við þorðum ekki að vonast til þess að hún færi að styrkjast en við töldum líkur á að það yrði ekki sama pressa um haustið og árin áður,“ segir Jón Bjarki.

Markaðurinn dregur sjálfur úr sveiflum
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir að styrkingu krónunnar megi að miklu leyti skýra með auknu gjaldeyrisinnstreymi vegna fjölgunar ferðamanna. Hann segir að sú árstíðasveifla sem menn þóttust greina árið 2012 skýrist fyrst og fremst af því að gjaldeyrisinnflæðið vegna aukins ferðamannastraums hafi verið töluvert meira en reiknað var með. „Á markaði eins og gjaldeyrismarkaði á ekki að vera nein árstíðasveifla. Hún skapaðist í hitteðfyrra af því að það var óvænt innflæði. En svo þegar menn fara að taka tillit til þess að það sé aukið innflæði á ákveðnum tímabilum þá taka menn tillit til þess í framtíðinni, m.a. þegar ákvarðaðir eru gjalddagar á lánum í erlendri mynt,“ segir Daníel. Þannig dragi markaðurinn sjálfkrafa úr sveiflunum með tíð og tíma.

Markvisst dregið úr sveiflum
Bæði Jón Bjarki og Daníel segja að það skipti máli að Seðlabankinn fór í fyrra að einbeita sér markvisst að því að draga úr sveiflum á gengi krónunnar til þess að draga úr samsvarandi verðbólguáhrifum. Þessi stefna hafi öðlast trúverðugleika. „Sérstaklega í ljósi þess að þeir lögðu áherslu á að þeir voru ekki að fara að verja gengið heldur að draga úr sveiflunum. Það hefði haft afskaplega lítinn trúverðugleika ef þeir hefðu sagst ætla að fara að festa gengið,“ segir Daníel. „Þessi vetur hefur klárlega unnið með Seðlabankanum hvað þetta varðar og hjálpað til við að gefa þessari stefnu hans aukinn trúverðugleika. „Það gæti endurspeglast í stefnu bankans þegar það er horft frammá við,“ segir Jón Bjarki.

Daníel segir að aðgangur að erlendum lánamörkuðum verði líklega áfram tregur á þessu ári. Fyrirtæki með erlendar skuldir haldi því áfram að greiða þær niður í stað þess að endurfjármagna þær. Þá muni styrking krónunnar á nýliðnu ári og boðaðar skuldaniðurfellingar verða til þess innflutningur á dýrum vörum, eins og t.d. bílum, heimilistækjum og húsgögnum aukast. Eins má búast við því að utanlandsferðum landsmanna fjölgi nokkuð miðað við fyrra ár. Þetta mun halda aftur af frekari styrkingu krónunnar og jafnvel leiða til minni háttar veikingar á árinu.