Í frumvarpi fjármála- og efnahags, sem lagt var fram í dag, er lagt til að gengistryggð lán verði heimiluð, en að um þau gildi sömu reglur og lög og gilda um lán í erlendum gjaldmiðli. Er það m.a. gert vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur lýst því yfir að hún telji bann við gengistryggingu ekki samrýmast meginreglu EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. Í greinargerð með frumvarpinu segir að stofnunin hafi síðan þá gert íslenskum stjórnvöldum það ljóst að verði hinu fortakslausa banni ekki aflétt megi búast við að málinu verði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sem hafa það að markmiði að samræma heimildir til að veita lán í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. lán í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum, og gengistryggð lán, að því er segir í greinargerðinni.

Þar segir að frá fjármálastöðugleikasjónarmiði eigi lán í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán sér ríka samsvörun með tilliti til þeirrar áhættu sem þeim fylgi fyrir lántaka, lánveitanda og þjóðarbúið. Seðlabankinn hafi lagt áherslu á að sú áhætta verði til frambúðar að vera takmörkuð og ásættanleg.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til breyting á lögum um Seðlabanka Íslands sem felur í sér að Seðlabankanum verði veitt heimild til að setja reglur um erlend lán lánastofnana þar sem unnt verður að binda slíkar lánveitingar ákveðnum skilyrðum sem varða tekjur lántaka, tegund trygginga, upplýsingaskyldu lánveitanda, lengd lánstíma og tilhögun endurgreiðslna.

Komi til þess að reglurnar verði settar munu skilyrðin sem þar koma fram eiga við í þeim tilvikum þegar erlend lánveiting hefur í för með sér gjaldeyrisáhættu fyrir lántaka. Skilyrðin gætu þó verið mismunandi eftir því hvaða flokkar lántaka ættu í hlut, svo sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila, sveitarfélög og aðilar sem opinberir aðilar eru í ábyrgð fyrir. Lagt er til að einungis verði heimilt að setja slíkar reglur á grundvelli tilmæla fjármálastöðugleikaráðs en aðkomu ráðsins er ætlað að renna stoðum undir tilgang reglnanna og samhæfa aðgerðir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans á þessu sviði.

Þá segir í greinargerðinni að reynslan hafi sýnt að neytendur séu almennt óvarðir fyrir gjaldeyrisáhættu og því sé lagt til í frumvarpinu að greiðslumat skuli framkvæmt þegar neytandi tekur lán sem tengist öðrum gjaldmiðli en sá er með tekjur í. Ennfremur gerir tillagan ráð fyrir að óheimilt verði að veita slíkt lán nema greiðslumatið leiði í ljós að lántaki hafi augljóslega fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem tekjur lántaka eru í samanborið við þann gjaldmiðil sem lánið er í eða tekur mið af.