*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 23. ágúst 2020 14:05

Gengisveiking og fjármagnsflótti framundan?

Kristrún Frostadóttir telur að hertar aðgerðir á landamærum komi til með að þrýsta á frekari gengisveikingu krónunnar.

Sveinn Ólafur Melsted
Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.
Haraldur Guðjónsson

„Gengismálin á þessum tímum eru mjög flókin, þar sem það er búið að taka svo marga þætti úr sambandi. Utanlandsferðir Íslendinga hafa nánast lagst af og hefur réttilega verið bent á að þar með sé minna útflæði fjármagns. Það breytir því ekki að það er nánast heldur ekkert innflæði frá ferðaþjónustunni að koma inn á móti næstu mánuðina og því myndast þrýstingur fyrir veikingu krónunnar," segir Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, spurð um áhrif hertra sóttvarnaaðgerða á landamærum á gengi íslensku krónunnar, en gengi krónunnar hefur veikst þó nokkuð gagnvart mörgum af stóru gjaldmiðlunum undanfarið.

Hún segir að þegar horft sé á stóru myndina hafi krónan nánast haldið sjó í gegnum þá erfiðleika sem COVID-19 faraldurinn hefur orsakað.

„Hingað til hefur gengi krónunnar, í ljósi aðstæðna, ekki verið óeðlilegt en auðvitað getur skapast þrýstingur á veikingu ef það skapast einhverjar væntingar um að stærsta gjaldeyrissköpun þjóðarinnar muni verða í lægð jafnvel næstu árin. Minni innflutningur er að fara að vega eitthvað upp á móti en hann kemur til vegna ástands sem við viljum ekki vera í. Ég myndi því halda, að öllu óbreyttu, að þessar aðgerðir setji frekari þrýsting til veikingar krónunni."

Gjaldeyrisforðinn ás uppi í erminni

Kristrún bendir þó á að ásinn sem þjóðin eigi uppi í erminni til að bregðast við gengisveikingu sé gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans.

„Gjaldeyrisvaraforðinn er til staðar til að bregðast við aðstæðum sem þessum. Það er ekki hlutverk seðlabanka að grípa inn í ef það er einhver undirliggjandi efnahagsþróun sem ýtir genginu niður á við. Ef það er að eiga sér stað hægfara umbreyting í kerfi á þá vegu að gjaldeyrissköpun sé að minnka, er undirliggjandi jafnvægi í kerfinu þess eðlis að krónan ætti að veikjast. En þegar við erum í tímabundnu ástandi sem verður ekki til af eðlilegum ástæðum heldur vegna þess að það er verið að grípa inn í markaðinn af hinu opinbera, og til verður hálfgerð gervistaða á krónunni, þá er full ástæða til að grípa inn í. Það er þó ekki hægt að leita í varaforðann endalaust, enda geta slíkir forðar verið fljótir að klárast ef þeim er beitt í langan tíma. Seðlabankinn getur gripið inn í til að brúa bilið til skamms tíma en augljóslega getur hann ekki komið í stað ferðaþjónustunnar sem ígildi gjaldeyrisinnflæðis til langs tíma."

Vísbendingar um að erlendir fjárfestar losi bréfin

Í tísti sem Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá sjóðstýringarfyrirtækinu Júpíter, birti í gær segir hann að vísbendingar séu uppi um að erlendir fjárfestar hafi byrjað að losa um eignir sínar í ríkisskuldabréfum í kjölfar þess að hertar aðgerðir á landamærum voru kynntar.

„Þessar vísbendingar koma fram í talsverðum viðskiptum með skuldabréf samhliða veikingu krónunnar og talsverðum inngripum Seðlabanka á gjaldeyrismarkaði," segir Agnar, en hann telur sóttvarnaaðgerðirnar geta fælt erlenda fjárfesta frá íslenska markaðnum. „Fyrir stuttu síðan var blásið í lúðra með 5.000 skimanir á landamærunum svo hægt væri að halda landinu opnu. Korteri seinna er lokun landsins svo orðið hið eðlilega ástand. Það blasir við að stjórnvöld hafa algerlega misst stjórnina á atburðarásinni."

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Júpíter.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér