Landsbankinn var virkur á gjaldeyrismarkaði dagana fyrir áramót og keypti gjaldeyri til að stýra gjaldeyrisjöfnuði sínum. Gjaldeyriskaupin tengjast m.a. uppgjöri á milli gamla og nýja bankans með útgáfu skilyrts skuldabréfs í evrum. Bréfið verður gefið út í lok fyrsta ársfjórðungs og mun virði þess miðast við gengi krónunnar um nýliðin áramót. Sérfræðingar Deloitte frá London vinna að verðmati á undirliggjandi eignasafni og verður það mat endanlegt.

Útgáfa skilyrta bréfsins hefur áhrif á gjaldeyrisjöfnuð bankans þar sem skuldin við gamla verður þá færð í erlenda mynt. Bankinn getur brugðist við með kaupum á gjaldeyri. Þá er ljóst að veikara gengi krónunnar um áramót er Landsbankanum í hag, þar sem skilyrta bréfið verður í evrum eða öðrum gjaldmiðlum sem gamli og nýi bankinn semja um.

Gengi krónunnar veiktist um 2% á síðustu viðskiptadögum ársins og hefur ekki staðið veikara síðan í febrúar árið 2010.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.