Gengisvísitala krónunnar gæti alveg farið aftur niður fyrir 110  stig, hugsanlega í 100 stig þegar og ef tekin verður ákvörðun um byggingu álvers við Helguvík á Reykjanesi. Þetta segir Arnar Jónsson forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðumiðlunar Landsbankans í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Hann segir að krónan muni hins vegar ekki haldast lengi svo sterk. "Slíkt gildi er óeðlilega hátt og mjög óæskilegt fyrir efnahagslífið og ég er alls ekki að mæla með svo sterku gengi," sagði Arnar. Ákvörðun um byggingu nýs álvers mun að öðru óbreyttu auka vaxtamuninn vegna hækkunar vaxta Seðlabankans og leiða til gjaldeyrisinnstreymis vegna fjárfestingarinnar. Hvort tveggja mun styrkja krónuna.

Arnar sagði Landsbankann vera í hópi þeirra sem hafa haldið því fram um nokkur misseri að allar efnahagslegar forsendur bendi til þess að krónan yrði sterk. "Rökin fyrir því hafa verið frekar einföld. Það er góðæri á Íslandi og allt á fleygiferð. Verðbólga er innan innan eðlilegra marka og með gríðarmikinn vaxtamun ertu kominn með uppskrift að sterkum gjaldmiðli."