Gengisvísitala krónunnar er nú 296 stig og hefur hún veikst um 27% frá því markaðir opnuðu hérlendis í morgun, samkvæmt upplýsingum úr Markaðsvakt Mentis.

Samkvæmt því er dollarinn 175 krónur, evran 221 króna og pundið 262 krónur.

Markaðsvakt Mentis fær upplýsingar um gengi krónunnar frá Xignite, sem er leiðandi alþjóðlegur gagnagrunnur með fjármálaupplýsingum.

Sá gagnagrunnur reiknar gengisvísitöluna út frá gengisskráningu krónunnar á alþjóðlegum mörkuðum en tekur einnig inn upplýsingar hérlendis frá.

Samkvæmt nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabankans er gengisvísitalan 236 stig. Dollarinn er samkvæmt því 139 krónur, pundið 210 krónur og evran 176 krónur.

Enn annað gengi kemur í ljós ef gengi krónunnar gagnvart dollar er flett á Google finance. Upplýsingar þar gefa til kynna að dollarinn sé 187 krónur.

Ljóst er að mikil óvissa er um það hvert raunverulegt gengi krónunnar er og gera má ráð fyrir að töluvert lítið magn af viðskiptum séu á bak við gengið erlendis.

Þó er víst að þessar ósamhverfu upplýsingar skapa óvissu fyrir marga, þá sérstaklega þá sem nota íslensk kreditkort erlendis.