Deutsche Bank átti mikilla hagsmuna að gæta þegar veigamiklar breytingar voru gerðar á fjármögnun Íbúðalánasjóðs í júní árið 2004. Þýski bankinn, sem var ráðinn til ráðgjafar við skipti á hús- og húsnæðisbréfum fyrir íbúðabréf, fékk samtals 748 milljónir greiddar fyrir verkið. Þóknunin var árangurstengd, það var bankanum í hag að sem mestu yrði skipt auk þess sem hann gæti hafa átt annarra hagsmuna að gæta vegna viðskipta tengdra aðila með húsbréf. Í samningum við bankann var sérstaklega kveðið á um að Deutsche Bank þyrfti ekki að tilkynna Íbúðalánasjóði viðskipti, hagnað eða hvers kyns þóknanir sem gætu komið í hlut hans við skuldabréfaskiptin.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Skýrslan var gefin út á þriðjudag, eftir 22 mánaða starf nefndarinnar. Nefndin er gagnrýnin á marga þætti í rekstri og ákvarðanir tengdar Íbúðalánasjóði. Sérstaklega er fjallað um skuldabréfaskiptin árið 2004. Í aðdraganda skiptanna var fallið frá leiðum sem hefðu dregið úr uppgreiðsluáhættu Íbúðalánasjóðs, en sú áhætta er helsta orsök þeirra vandamála sem sjóðurinn stendur frammi fyrir í dag. Tap sjóðsins á skuldabréfaskiptunum, á verðlagi ársins 2012, er að lágmarki metið á 21 milljarð í skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.