Finnur Oddsson var í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út núna á fimmtudaginn. Þar ræðir hann um upplýsingatæknigeirann og segir að samkeppnishæfni Íslands sé að versna mjög hratt.

Mest spennandi geiri sem völ er á

Fáir geirar atvinnulífsins hreyfast jafn hratt og upplýsingatæknigeirinn og má þar benda á að leiðandi fyrirtæki fyrir áratug var Yahoo en í dag á fyrirtækið í miklum erfiðleikum. Spurður hvort Nýherji hafi áhyggjur af því að enda eins og Yahoo segir Finnur þetta sé mest spennandi geiri sem völ er á. „Það er heilsusamlegt að vera hræddur. Það að verða gamaldags í upplýsingatækni gengur ekki, a.m.k. ekki lengi, því orð­in gamaldags og upplýsingatækni ríma ekki saman. Við þurfum ávallt að vera á tánum með þær lausnir sem við bjóð­ um viðskiptavinum og þá þekkingu sem starfsfólkið okkar býr yfir. Þetta á sérstaklega við í okkar geira því að við erum með fullt af öflugum keppinautum á íslenskum markaði sem við berum mikla virðingu fyrir og til viðbótar þá kemur samkeppni að utan. Upplýsingatækni virðir ekki landamæri nema að hluta og það er auðvelt að kaupa aðgang að ýmsum lausnum í gegnum tölvuský án þess að það skipti sérstaklega máli hvar í heimi slíkar lausnir eru hýstar. Vegna þessa þurfum við að leggja þeim mun meiri rækt við þjónustuhlutverk okkar, ráðgjöf og nær­ þjónustu sem erlendir samkeppnisað­ ilar geta illa leikið eftir.“

Ódýrara að þróa tækni í Montreal heldur en í Reykjavík

Finnur segir að Ísland þurfi einnig að vera á tánum þegar kemur að því að byggja upp rekstrarumhverfi fyrirtækja. „Það skiptir miklu fyrir lífskjör hér til framtíðar hversu mikil verðmæti skapast af starfsemi fyrirtækja. Af þeim sökum er rannsóknar- og þróunarstarf (R&Þ) sérlega eftirsóknarvert, sem eru oft hátt launuð störf fyrir vel menntað fólk. Vandinn er að starfsemi af þessum toga er mjög hreyfanleg, á milli landa, og það verður æ erfiðara fyrir íslensk fyrirtæki að réttlæta rannsókna- og þróunarstarf hérlendis því samkeppnishæfni okkar hefur verið að versna mjög hratt. Launaþróun síðustu ára og sú sem vænta má í kjölfar kjarasamninga er ósjálfbær, en hún verður samkvæmt Hagstofunni á bilinu 7-9% næstu þrjú ár. Þessi þróun er sérstaklega varhugaverð þegar hún er skoðuð í tengslum við stöðuga styrkingu gengis krónunnar síðustu tvö ár og spá um hagvöxt.

Að auki er umhverfi endurgreiðslna og skattaívilnana vegna rannsókna- og þróunarstarfs lakar hér en víða annars staðar. Sem dæmi um það má nefna að hérlendis fæst 20% endurgreiðsla, með 100 m.kr. þaki á kostnaði til útreiknings endurgreiðslu en til samanburð­ ar er ekkert þak á slíkri endurgreiðslu í löndum þar sem er alvara í að laða að sér rannsókna- og þróunartengda starfsemi. Kanada er eitt af þessum löndum, en við erum með lítinn hluta af starfsemi Tempo í Montréal, sem býður upp á frábærar aðstæður fyrir starfsemi eins og okkar. Þar eru öflugir háskólar, mikið af vel menntuðu og hæfu tæknifólki og styrkjaumhverfi sem veldur því að það er einfaldlega töluvert ódýrara að þróa tækni þar heldur en í Reykjavík. Ef fram fer sem horfir þá munu áhugaverð störf hliðrast frá Íslandi og þau eru þegar byrjuð að gera það. Við gerum t.a.m. ráð fyrir hlutfallslega meiri fjölgun starfa á starfstöð Tempo í Montréal en í Reykjavík á þessu ári.“

Það eru engar kraftaverkalausnir

Spurður hvernig bæta megi rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi segir Finnur: „Stjórnvöld myndu gera vel í því að afnema þak vegna rannsókna og þróunar ívilnunar, en það myndi skapa hvata fyrir fyrirtæki að velja Ísland þegar þau efla þróunarstarf. Eitt og sér myndi það stuðla að betri lífskjörum hérlendis. Því til viðbótar, sem er kannski stóra málið, þá þarf að efla hagstjórn til að tryggja fyrirtækjum nauðsynlegan stöðugleika og við­ unandi vaxtastig. Eins og ég nefndi er þróun launa eitt af stóru málunum og það er ástæða til þess að allir fylki sér um svokallað norrænt vinnumarkaðsmódel, unnið undir yfirskriftinni SALEK. Vonandi ber okkur gæfa til að hækka laun til lengri tíma en ekki umfram verðmætasköpun í hagkerfinu. Það vita allir hvernig það endar, í verðbólgu, rýrðum kaupmætti og nið­ursveiflu efnahagslífs. En til að bæta umhverfið eru engar kraftaverkalausnir, þetta snýst bara um að hafa hagfræðileg grunnatriði í lagi.“

Ítarlegt viðtal við Finn má finna í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.