„Þetta gengur náttúrulega ekki í lýðræðisþjóðfélagi,“ sagði Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi í dag. Þau ummæli féllu þegar tengsl milli Hæstaréttar og lagadeildar Háskóla Íslands voru rædd.

Bjarni Már og Kristján fóru yfir víðan völl í spjalli sínu en nokkuð hefur verið rætt um það undanfarið að dómarar í Hæstarétti sinni aukastörfum við kennslu við háskóla landsins. Til að mynda er forseti réttarins í 48% stöðu sem prófessor við réttinn og annar dómari í 20% stöðu. Tveir tiltölulega nýlega skipaðir dómarar voru prófessorar við HÍ áður en til skipunar kom og eru þær nú að ljúka störfum við lagadeildina.

Í máli Bjarna kom fram að þetta kynni að vera bagalegt. Þó þyrfti að gera greinarmun á því hvort dómarar sinntu stundakennslu við lagadeildirnar eða hvort þeir væru fastráðnir við þær. Þeir fyrrnefndu kæmu aðeins inn og miðluðu sinni reynslu og þekkingu en þeir síðarnefndu hefðu aðgang að deildafundum og stjórnkerfi deildanna. Slíkt gæti í einhverjum tilfellum skapað hagsmunaárekstra.

Afburðanemandi fékk ekki að sækja um

Öllu alvarlegra þótti honum hvernig staðið er að ráðningum aðstoðarmanna dómara við æðsta rétt landsins. Nýverið birtist svar við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingsmanns Pírata, þar sem kom í ljós að störf aðstoðarmanna hefðu ekki verið auglýst. Nýútskrifaðir lögfræðingar frá lagadeild HÍ hefðu síðan hreppt hnossið.

„Ég get tekið dæmi af afburðanemanda frá okkur sem hafði samband við réttinn og spurði hvort hægt væri að skilja eftir umsókn. Svarið þar var nei. Haft yrði samband við mögulegt starfsfólk þegar þar að kæmi. […] Þetta eru ójöfn tækifæri fyrir nýútskrifaða lögfræðinga að geta ekki sótt um heldur þá virðist sem þú þurfir að þekkja einhvern. Það minnir á kunningjasamkomulag og það gengur ekki á æðstu stöðum,“ sagði Bjarni.

Benti hann einnig á að þegar Landsrétti var komið á fót voru átta stöður aðstoðarmanna auglýstar opinberlega. Síðan þá hafa hins vegar sex aðstoðarmenn verið ráðnir í réttinn án auglýsingar. Enn fremur sé lögum samkvæmt ekki skylt að auglýsa störf hjá umboðsmanni Alþingis, sem síðan hefur eftirlit með því að stjórnvöld sinni auglýsingaskyldu sinni.

Bjarni benti enn fremur á það að í þeim tilvikum sem Hæstiréttur skipar fulltrúa í nefndir og ráð á vegum framkvæmdavaldsins, kveðið er á um slíkt í sumum lagabálkum, að þá hafi hallað nokkuð á lagadeild HR. Staðan sé 33-7 fyrir HÍ. Reyndar hafi hún skánað undanfarin ár þar sem af þeim sjö HR-ingum, sem tilnefndir hafa verið, hafa fimm verið skipaðir á síðustu tveimur árum.

Tvær hliðar á sama peningi

Þátttaka dómara í opinberri umræðu var einnig nefnd til sögunnar en nýverið tilkynnti héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson, fyrrum kollegi Bjarna við lagadeild HR, að hann hygðist bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Arnar Þór hefur skorið sig úr mengi dómara landsins með virkri þátttöku í opinberri umræðu. Bjarni sagði að slíkt kynni að vera bagalegt en það væri önnur hlið til á sama peningi.

„Hver er munurinn á því að dómari skrifi pólitískar greinar um málefni og að hann skrifa fræðigreinar um efnisreglur lögfræðinnar þar sem hann útlistar skoðanir sínar varðandi fræðileg efni? Þar útskýra menn hvernig rétturinn er – fá jafnvel frí frá dómstörfum til þess – og segja hvernig fólk á að skilja lögin sem þeir dæma síðan eftir,“ sagði Bjarni.