*

laugardagur, 11. júlí 2020
Erlent 13. janúar 2020 14:18

Gengur frá borði með 8 milljarða

Fyrrum forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, fær um 7,7 milljarða íslenskra króna í starfsloka- og lífeyrisgreiðslur.

Ritstjórn
Dennis Muilenburg, fyrrum forstjóri Boeing.
epa

Dennis Muilenburg, fyrrum forstjóri Boeing, fer svo sannarlega ekki tómhentur frá starfslokum sínum. Samkvæmt frétt BBC gengur hann frá borði með 62 milljónir dollara (um 7,7 milljarða íslenskra króna) í starfsloka- og lífeyrisgreiðslur.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um í heimspressunni þá hefur Boeing staðið í ströngu í kjölfar kyrrsetningar Boeing 737-Max flugvéla á alþjóðavísu, vegna tveggja mannskæðra flugslysa með stuttu millibili. Seint á síðasta ári var Muilenburg rekinn úr forstjórastarfinu hjá Boeing og var það gert til að freista þess að vinna endurheimta traust í garð fyrirtækisins, en líkt og gefur að skilja hefur traust fyrirtækisins beðið álitshnekki vegna fyrrnefndra vandamála.

Að sögn Boeing fékk forstjórinn fyrrverandi aðeins þær greiðslur sem hann átti rétt á samkvæmt samningi við fyrirtækið og segir flugvélaframleiðandinn að Muilenburg hafi ekki fengið neinar aukalegar bónusgreiðslur. 

Til viðbótar við 62 milljón dollara greiðsluna, á Muilenburg kauprétti í fyrirtækinu sem metnir voru á 18,5 milljónir dollara miðað við gengi hlutabréfa Boeing við lokun markaða á sl. föstudag.

Stikkorð: Boeing Dennis Muilenburg