Búast má við því að gjaldeyrisforði Seðlabankans muni minnka verulega á næstu árum og að vaxtagreiðslur vegna Icesave samningsins muni gera stöðuna enn verri. Þetta kemur fram í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag en þar segir að hrein erlend staða bankans við upphaf ársins hafi í raun verið um 90 milljarðar króna en ekki 380 milljarðar eins og fram kemur í reikningum bankans. Stafar þessi mismunur af því að skammtímaskuld Seðlabankans við innlenda aðila í erlendum gjaldeyri, aðallega skilanefndir föllnu bankanna, er ekki talin með í hreinni innlendri stöðu en skuldin nemur 290 milljörðum króna.

Í haust koma 110 milljarðar á gjalddaga af erlendri skuld ríkissjóðs auk þess sem Morgunblaðið segir sig hafa heimildir fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur fái á næstu mánuðum að skipta 18 milljörðum króna í erlendan gjaldeyri vegna afborgana erlendra lána. Þá muni Tryggingasjóður innistæðueigenda þurfa um 20 milljarða virði af gjaldeyri vegna vaxtagreiðlsna af Icesave. Samanlagt nemur þetta um 150 milljörðum króna og er þá ekki tekið tillit til erlendra skulda sveitarfélaga en að sögn Morgunblaðsins munu um 20 milljarðar falla á gjalddaga hjá sveitarfélögum á árinu.