*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 20. nóvember 2019 08:27

Gengur illa að ná í innlenda fjárfesta

Fréttablaðið segir Play hafa gengið erfiðlega að fá innlenda fjárfesta til að leggja félaginu til tólf milljónir evra í hlutafé.

Ritstjórn
Stofendur félagsins; Þóroddur Ari Þóroddsson, Bogi Guðmundsson, Arnar Már Magnússon og Sveinn Ingi Steinþórsson.

Nýja lággjaldaflugfélaginu Play hefur gengið erfiðlega að fá innlenda fjárfesta til að leggja félaginu til tólf milljónir evra (1,7 milljarða króna) í hlutafé. Íslensk verðbréf hafa á síðustu vikum unnið að því að fá fjárfesta með í verkefnið. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Í gær hækkaði hlutabréfaverð Icelandair um tæplega 10% í um 350 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í gær. Herma heimildir Fréttablaðsins að sú hækkun sé rakin til óvissu sem ríki um hlutafjársöfnun Play, þó hafi ekki enn fengist staðfestar upplýsingar um fjárfesta sem hafi skuldbundið sig til að taka þátt í útboðinu.

Þá segir Fréttablaðið að Íslensk verðbréf hafi kynnt fjárfestingu í Play fyrir fjölmörgum einkafjárfestum og fyrirtækjum. Ku fjárfestingin ganga út á að fjárfestarnir muni eignast 50% hlut í flugfélaginu á móti stofnendum og öðrum starfsmönnum félagsins. Þá herma heimildir Fréttablaðsins að fjárfestarnir sett sig upp á móti þvi að stofnendur Play eignist svo stóran hlut í félaginu, auk þess sem þeir hafi sett spurningarmerki við flugrekstrarreynslu stjórnendateymisins. Viðskiptaáætlanir Play geri ráð fyrir því að flugfélagið verði strax farið að skila 70 milljóna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Það þyki fjárfestunum full bjartsýnt og sömuleiðis hafi þeir kallað eftir því að kjölfestueigandi verði fenginn að flugfélaginu í hlutafjárútboðinu.