Sala á sauðargærum til Evrópu gengur nú verr en oft áður og nemur heildarverðmæti óseldra gæra yfir 200 milljónum króna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Loðskinns á Sauðárkróki, segir í samtali við Fréttablaðið að innflutningsbann Rússa, sem gildi gagnvart flestum ríkjum Evrópu, skýri að mestu hversu illa gangi að selja vöruna.

Á síðasta ári seldust allar gærur sem sláturleyfishafar áttu eftir sláturtíðina 2013. „Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta seljist ekki en þetta mun taka lengri tíma en venjulega. Maður er því ekkert orðinn stressaður enn þá en þessi óvissa sem hefur myndast gerir það að verkum að kaupendurnir fara mjög varlega,“ segir Gunnsteinn.