Sá skemmtilegi siður er viðhafður hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði að færa áhöfnum erlendra skipa sem landa hjá fyrirtækinu dýrindis rjómatertur. Með þessu sýnir fyrirtækið hlýhug sinn og áhafnirnar kunna vel að meta baksturinn sem kemur frá veitingastaðnum Sumarlínu á Fáskrúðsfirði.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir fyrirtækið hafi alla tíð lagt sig fram um að taka vel á móti þeim sem koma til Fáskrúðsfjarðar. Það að færa áhöfnunum rjómatertur er liður í því.

„Það skiptir máli að taka vel á móti fólki. Í fyrra tókum við á móti 45 þúsund tonnum frá erlendum skipum. Það spyrst kannski út að það sé gott að koma til Fáskrúðsfjarðar. Svo rammt kveður að þessu að í Noregi gengur staðurinn undir heitinu „Cake Town“. Svo eru samfélagsmiðlarnir svo öflugir. Sjómennirnir taka sjálfir myndir af rjómatertuátinu og þetta er komið út um allt fyrr en varir og er bara skemmtilegt afspurnar,“ segir Friðrik Mar.

Viðbótarframlag

Hann segir að erlendar landanir skipti fyrirtækið umtalsverðu máli. Í fyrra tók Loðnuvinnslan á móti 94 þúsund tonnum og þar af næstum helminginn frá erlendum skipum. Verðmæti þessara 45 þúsund tonna sem erlend skip lönduðu í fyrra eru þó ekki jafnmikil og í aflanum sem skip Loðnuvinnslunnar landa enda fer talsverður hluti af hráefninu til bræðslu. Engu að síður standa erlendar landanir undir nærri helmingnum af öllu hráefninu. Með þessu skapast atvinna, tekjur fyrir höfnina og hjálpar Loðnuvinnslunni að hafa upp í fastan rekstrarkostnað.

Friðrik Mar segir að vissulega hafi menn fundið fyrir áhrifunum af loðnubrestinum í vetur og útlit með makrílveiðar á þessu sumri var alls ekki gott miðað fyrri ráðgjöf. Þar stefndi allt í 40% samdrátt í veiðum samkvæmt fyrri ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Eftir endurmat á ráðgjöfinni telst óhætt að veiða 770 þúsund tonn úr sameiginlega makrílstofninum og miðað við það má telja að veiðar Íslendinga verði svipaðar og í fyrra. Útgefinn kvóti Íslendinga var í fyrra um 130 þúsund tonn.

„En því má ekki gleyma að loðnan er gríðarlega mikils virði. Hún er fljóttekin og hagkvæm í veiðum.“