Búið er að veðsetja allt hlutafé í Urði Verðandi Skuld, dótturfélagi Íslenskrar erfðagreiningar auk alls hlutafjár í móðurfélaginu vegna skulda við bandarískan fjárfestingarsjóð. Félaginu ber að greiða skuldirnar fyrir lok ársins 2014.

Stjórnendur Íslenskrar erfðagreiningar veðsettu bæði hlutabréf í dótturfélagi þess, UVS-Urður Verðandi Skuld ehf., og hlutafélaginu sjálfu ásamt öðrum eignum þegar tekið var lán upp á 5 milljónir dollara frá fjárfestingarsjóðnum Hercules Technology Capital Growth. Upphaflega var Íslenskri erfðagreiningu veitt lánalína upp á 12 milljónir dollara að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Félagið hefur ekki náð að uppfylla skilyrðin sem voru fyrir því að fá eftirstöðvarnar af lánalínunni greiddar út og hefur frestur til þess runnið út.

Vaxtakjör fyrirtækisins hafa einnig versnað til muna. Í lok árs 2010 báru skuldir félagsins vexti sem voru á bilinu 4,73%-5,% en í lok árs 2011 lágu vaxtakjör félagsins á bilinu 5,7%-13,5%. Fimm milljóna dollara skuld félagsins við Hercules- sjóðinn ber 13,5% vexti. Samkvæmt ársreikningi þarf fyrirtækið að greiða 1,5 milljónir dollara á þessu ári vegna lánsins, 2 milljónir dollara árið 2013 og 1,5 milljónir dollara árið 2014. Það bætist við greiðslu annarra skulda upp á 1,2 milljónum dollara á þessu ári.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Lesendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.