Líftæknifyrirtækið Genís væntir þess að koma fyrstu afurðir félagsins á markað innan fárra ára. Það kemur fram í ítarlegri grein í Læknablaðinu um félagið sem stendur á ákveðnum tímamótum.

Líftæknifyrirtækið Genís hefur um árabil unnið að þróun efnanna kítíns og kítósans úr rækjuskel og gengið í gegnum ýmsar breytingar á eignarhaldi og rekstrarformi á þeim tíma. Núverandi hluthafar í Genís eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Hólshyrna ehf. sem er eignarhaldsfélag þeirra Róberts Guðfinnssonar og Vilhelms Más Guðmundssonar.

Genís keypti þrotabú Primex í árið 2001 á um 250 milljónir íslenskra króna en Primex hafði hafið kitosan-rannsóknir nokkrum árum áður.

Í grein Læknablaðsins er bent á að kítósan er þekkt efni og mikið notað í fæðubótar- og snyrtivöruiðnaði en frá árinu 2005 hefur Genís, undir stjórn Jóhannesar Gíslasonar, einbeitt sér að þróun á efninu til notkunar við bæklunarskurðlækningar með ígræðslu í beinvef. Niðurstöður verkefnisins hafa skapað grundvöll fyrir viðamikla einkaleyfisumsókn en félagið hefur þegar lagt inn nokkrar einkaleyfaumsóknir sem tengjast verkefninu og var fyrsta einkaleyfið formlega veitt í Evrópu á síðasta ári.

Kítósan er beinvaxtarhvetjandi auk þess að hafa t.d. bólguhemjandi eiginleika. Stjórnun eiginleika kítósansins og stjórnun efnisgerðar og efniseiginleika hýdroxýapatítsins, svo og samspil þessara þátta á örskala, munu gegna lykilhlutverki í að hanna beinsement með heppilegum eiginleikum hvað varðar t.d. lífvirkni, styrk og hörðnunartíma.