*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 16. janúar 2020 12:15

Genki kynnir snjallhring fyrir fyrirlesara

Íslenska tæknifyrirtækið Genki Instruments kynnir glærubendilinn Halo. Hægt verður að kaupa hann í gegnum í Kickstarter í vor.

Ritstjórn
Jón Helgi Hólmgeirsson og Haraldur Hugosson, stofnendur Genki
Haraldur Guðjónsson

Íslenska tæknifyrirtækið Genki Instruments kynnti glærubendilinn Halo á CES, nýafstaðinni tæknisýningu í Las Vegas. Halo er hringur sem gerir þér kleift að stýra glærum og kynningum á nýjan máta og er ætlað að auka sjálfstraust notenda við kynningar.

Halo mun fara á markað í haust en hægt verður að tryggja sér eintak í gegnum Kickstarter hópfjármögnunarherferð sem fer af stað nú á vormánuðum.

Í tilkynningu frá Genki segir að rannsóknir sýni að 55% af samskiptum ráðast af líkamstjáningu og með því að nota Halo til að stýra kynningum geta notendur tjáð sig óhindrað. Hönnun hringsins geri notendum kleift að stýra glærum á náttúrlegan hátt, hvort sem er með hreyfingum eða með tökkum sem auðvelt er að ná til með þumalfingri.

Sjá einnig: Gefur tónlistarsköpun nýja vídd

Halo hefur meðal annars verið notaður til að stýra kynningum á lokadegi Startup Reykjavík 2019, en einnig munu allir fyrirlesarar styðjast við hringinn á UT Messunni þann 7. - 8. febrúar næstkomandi.

Halo er sagt virka með öllum helstu kynningarforritum og ekki þurfi sérstakt forrit til að nota hringinn. Hann hefur allt að 10 metra drægni og tengist tölvum með Bluetooth LE tækni. Rafhlaða Halo endist í allt að 24 tíma og slekkur hann sjálfur á sér þegar hann er ekki í notkun og hámarkar þannig notagildi hverrar hleðslu.

Með því að nýta hugbúnað sem fylgir með Halo geta notendur aðlagað virkni takka og nýtt hreyfingar (e. gestures) til að leggja áherslu á mikilvægustu atriði hverrar glæru.

Stikkorð: Genki instruments