„Það er sérlega ánægjulegt að við fundum fjárfesta hér á Íslandi. Við bjuggumst ekki við því,“ segir Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Meniga. Fyrirtækið hefur lokið tæplega 800 milljóna króna fjármögnun. Fjárfestingarfélagið Kjölfesta og samlagssjóðurinn Frumtak lögðu fjármagn til Meniga. Báðir sjóðirnir eru í eigu lífeyrissjóða. Að Kjölfestu koma 14 fagfjárfestar þar af 12 lífeyrissjóði en Frumtak er í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og sex lífeyrissjóða auk Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans. Frumtak hefur verið hluthafi í Meniga síðan félagið lauk sinni fyrstu fjármögnun árið 2010 og bætti við hlut sinn nú.

Georg vill ekki gefa upp hversu stóran hlut Kjölfesta og Frumtak keyptu í Meniga. Stofnendur fyrirtækisins eru stærstur hluthafar fyrirtækisins ásamt Kjölfestu og Frumtaki. Starfsmenn og ráðgjafar eiga minnihluta.

Georg segir fjármögnunina koma sér mjög vel.

„Við sjáum fram á stór tækifæri á markaðnum og viljum ná þeim hraðar. Nú getum við sett meiri kraft í vöruþróun en áður,“ segir hann. Georg segir Ísland mikilvægan prufumarkað áður en nýjar vörur eru kynntar úti í hinum stóra heimi. Nú sé svo komið að nærri 90% tekna fyrirtækisins koma erlendis frá.

Hugbúnaður Meniga er nú þegar í notkun hjá sex bönkum í fimm löndum. Að auki vinnur Meniga að innleiðingu hugbúnaðarins hjá sex samstarfsaðilum til viðbótar í sjö löndum. Hjá Meniga starfa nú 45 manns í Reykjavík og Stokkhólmi.