Vinsælir tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina getað náð sér í aukatekjur með því að selja lög í aug­lýsingar. Meðlimir hljómsveitarinnar Sigur Rósar hafa ekki verið spenntir fyrir slíkri notkun á tónlist sveitarinnar þó svo að auglýsendur hafi sýnt þeim mjög mikinn áhuga.

„Við höfum aldrei hingað til selt lag í auglýsingu. Ég er nokkuð viss um að ég sé að segja satt þar,“ segir Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar. Hann bendir á að félagar hans í hljómsveitinni hafi íhugað það í gegnum tíðina. Menn hafi þó verið tregir við það því um leið og búið sé að selja lag í auglýsingu þá sé búið að merkja lagið við vöruna. „Það hafa samt margar auglýsingar komið sterklega til greina. Í einhverjum tilfellum höfum við sagt já, en svo hefur það dottið upp fyrir,“ segir Georg en bendir þó á að þeir hafi einnig gefið lög í auglýsingar. Einnig hafi lög ratað í tölvu­leiki og bíómyndir sem eru þeim að skapi. Þeir líti slíkt þó aðeins öðrum augum en hefðbundnar auglýsingar.

Auglýsendur stela tónlistinni

Það að Sigur Rós hafi hafnað tilboðum frá ýmsum fyrir­tækjum hefur það samt sem áður ekki komið í veg fyrir að tónlist sveitarinnar hafi verið notuð í auglýsingar. Fyrir nokkru tók sveitin saman nokkur dæmi á heimasíðu sinni um auglýsingar þar sem lítið breyttar útgáfur af lögunum voru notaðar undir auglýsingar stórfyrirtækja og merkja á borð við Audi, Coca­Cola og Orange. Georg segir þetta vissulega hafa farið í taugarnar á sér á tíðum.

„Mér finnst þetta aðallega fyndið, sérstaklega eftir á að hyggja. Það er gróft að stela einhverju sem maður bjó til. Breyta því á svo lítinn hátt að maður tekur varla eftir því. Við höfum kært nokkrum sinnum,“ segir Georg en slík málaferli hafa lítinn árangur borið. „Það hefur ekki endað vel. Það hefur aldrei neitt komið út úr því. Það er í raun nóg að breyta einni nótu. Það eru til menn sem eru sérfræðingar í þessu og setjast niður og hlusta á upprunalegu og stældu útgáf­una og ákveða hvort þetta sé nógu mikil breyting eða ekki,“ segir Georg sem segir það leiðinlegast að allir haldi að þarna sé um þeirra verk að ræða. „En nei, þetta er ekki lagið okkar. Þetta er raunverulega bara léleg útgáfa af lagi sem við gerðum. Kannski í auglýsingu sem við sögð­ um nei við.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .