Auðkýfingurinn George Soros segir þjóðarleiðtoga á evrusvæðinu ekki gera sér grein fyrir þeirri hættu sem þeir standi frammi fyrir. Hann telur þjóðarleiðtogana beina sjónum sinum um of á að draga úr skuldum ríkja þegar helsti vandinn liggi hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum. Lausnin snú fremur að því að auka hagvöxt og samkeppnishæfni en að draga úr skuldum. Hann segir þjóðarleiðtoga hafa þrjá mánuði til að koma sér saman um aðgerðir til að blása lífi í efnahag landa á evrusvæðinu og bjarga evrunni.

Soros var með erindi um málið á ráðstefnu um hagræðingaraðgerðir í Evrópu á Ítalíu um helgina og fjallar breska útvarpið, BBC, um málið.

Rök Soros fyrir þessari skoðun er sú að stjórnmálaflokkar sem styðja neyðarbjörgun Grikklands muni fara með sigur af hólmi þar í landi í næstu þingkosningum. Á hinn bóginn nær skuldavandi evrusvæðisins hámarki í haust. En þá gæti orðið of seint að bjarga málum. Þá verður kreppan búin að bíta svo fast í hagkerfi landsins að hendur Angelu Merkel Þýskalandskanslara verða bundnar  og verði hún tregari en ella til að samþykkja frekari björgunaraðgerðir.