Árið 1989 stofnaði Orri Vigfússon Verndarsjóð villtra laxastofna eða North Atlantic Salmon Fund (NASF). Það má því segja að hann hafi helgað síðustu 25 árum ævi sinnar laxinum.

„Ég byrjaði á þessu af því að ég er ástríðufullur veiðimaður," segir Orri. „Norður-Atlantshafslaxinn hefur átt undir högg að sækja og mér er umhugað um að hann fái að vaxa og dafna.  Það er nú bara svo einfalt."

„Þetta snýst um að gera viðskiptaverndarsamninga - um að kaupa réttindi í Atlantshafinu þannig að menn hætti að veiða lax í sjó. Við höfum stofnað dóttursjóði víða um lönd sem við borgum í. Þessir sjóðir eru notaðar til þess að aðstoða þá sjómenn sem áður veiddu lax við að gera eitthvað annað."

Hefur safnað sex milljörðum króna

Að sögn Orra hefur Verndarsjóðurinn og dóttursjóðir hans safnað á um sex milljörðum króna á síðustu 25 árum.

Orri segir að í byrjun hafi mörg þeirra skipa sem stunduðu laxveiðar í Norður-Atlantshafi siglt undir panamískum eða pólskum fána en hvorug þeirra þjóða var aðili að alþjóðlaxaverndunarsamningnum. Orri hafði samband við bandarísk stjórnvöld til að athuga hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað.

„Vinir mínir í Texas, James Baker og George Bush eldri, settu þrýsting á stjórnvöld í Panama og Póllandi. Árangurinn varð sá að stjórnvöld viðkomandi landa bönnuðu öllum skipum sem sigldu undir þeirra fánum að veiða lax. Mörgum árum seinna eða árið 2006 þáði Bush svo loks heimboð þegar hann kom hingað til að veiða í Selá í Vopnafirði. James Baker á enn heimboð. "

Orri hefur ferðast út um allan heim í baráttu sinni og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir. Tímaritið Time valdi Orra eina af hetjum Evrópu árið 2004 ( Time Magazine European Hero) og þremur árum seinna hlaut hann umhverfisverðlaun Goldman (Goldman Environmental Prize).

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Orra Vigfússon. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .