George Bush, Bandaríkjaforseti, ver ákvörðun stjórnvalda um björgunaraðgerðir fyrir fjármálamarkað þar í landi. Ljóst þykir að skattgreiðendur bera kostnaðinn af aðgerðunum, en Bush segir þann kost skárri en atvinnuleysi og ótryggan lífeyrissparnað.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lagt til stofnun 700 milljarða dala sjóðs sem ætlað er að kaupa stóran hluta eitraðra skulda á bandarískum fasteignamarkaði. Sjóðurinn myndi halda utan um skuldirnar þar til þær yrðu seldar, einhverntíman í framtíðinni.

Bush viðurkenndi að stjórnvöld væru með slíkum aðgerðum að taka áhættu með töluverða upphæð af peningum skattgreiðenda. „En ég er sannfærður um að þessi leið mun kosta fjölskyldur í landinu minna en aðrar leiðir,“ sagði Bush. „Meira álag á fjármálamarkað okkar myndi kosta mikla fækkun starfa, rústa lífeyrissparnaði og gera ástandið á húsnæðismarkaði enn verra.“

Fundað verður um tilhögun björgunaraðgerðanna um helgina og búist er við að sjóðurinn verði stofnaður með lögum á næstu dögum.

Henry Paulson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Bush, vill ekki útlista hvernig fyrirhugaðar aðgerðir færu fram í smáatriðum, en sagði þó að þær yrðu að vera nægilega umfangsmiklar til að hafa raunveruleg áhrif á markaðinn. Þegar erfiðleikatímabilið sem nú stendur yfir klárast yrðu stjórnvöld svo að endurskoða lagaumhverfi banka og fjármálastofnana.