Það á varla af framleiðendum Tesla bílanna að ganga. Þrír bílar brunnu nýlega eins og VB.is hefur greint frá og hlutabréf féllu um 22%. Rétt er þó að taka fram að hlutabréf höfðu hækkað verulega fram að þeim tíma. Nýjasta áfallið er það að stórleikarinn George Clooney gefur bílnum sínum algjöra falleinkunn.

Clooney segir í samtali við blaðið Esquire að hann hafi verið einn af fimm fyrstu eigendum Teslu í heiminum. Bíllinn er af gerðinni Tesla Roadster, sem kom á markað árið 2008. Clooney eignaðist fimmta bílinn sem var settur á markað. Bílarnir sem nú eru á markaðnum eru Tesla Model S.

„Ég er að segja þér það, bíllnn hefur allt of oft stöðvast hjá mér vegna bilunar. Og ég hef spurt þá hjá Tesla af hverju í fjandanum bíllinn væri alltaf að stöðvast hjá mér,“ segir Clooney í samtali við blaðið.

Viðtalið hefur vakið þónokkra athygli og ljóst má þykja að ummæli Clooneys eru ekki góð auglýsing fyrir bílaframleiðandann.

Árétting. Even, innflytjandi Tesla-bíla hér á landi vill koma því á framfæri í tengslum við bruna bílanna að í fyrsta tilvikinu var keyrt á brotajárn á hraðbraut, í öðru var Tesla-bíl ekið á ofsahraða yfir hringtorg og lenti bíllinn á tré. Í þriðja skiptið var bíl svo ekið yfir járnstykki á hraðbraut. Hvorki urðu slys á ökumönnum né farþegunum í bílunum í óhöppunum.