George Michael, eða Georgios Kyriacos Panayiotou eins og hann var skírður, lést á heimili sínu í Goring í Oxfordskíri í gær.
Sjúkrabíll kom að heimili hans rétt fyrir klukkan 14 en þá var hann þegar látinn. Ekki hefur verið gefið upp hvers vegna hann lést en ekki er heldur talið að neitt saknæmt hafi gerst. Talið er að hjartað hafi gefið sig en ástæður andlátsins munu koma í ljós eftir krufningu.

Michael var fæddur í London 25. júní 1963 og var því 53 ára þegar hann lést. Hann skaust upp á stjörnuhimininn í byrjun níunda áratugarins þegar hann var í dúettnum Wham ásamt Andrew Ridgeley. Eftir að Wham hætti átti Michael mjög farsælan sólóferil.

Á tæplega fjórum áratugum seldi Michael meira en 100 milljón plötur. Kaldhæðni örlganna geta verið mikil því eitt af hans allra frægustu lögum er jólasmellurinn Last Christmas.

Fjöldi þekktra tónlistarmanna hafa látist á árinu, eins og til dæmis David Bowie, Prince, Leonard Cohen og Glenn Frey.