Milljarðamæringurinn George Soros segir að of miklar breytingar á regluverki banka og fjármálastofnana muni valda frekari óstöðugleika, ekki bara í fjármalakerfinu heldur í öllum stærstu hagkerfum heims.

Í grein sem Soros skrifar í Financial Times í dag segir Soros að fjármálakerfið þurfi ekki stórfelldar lækningameðferðir til að koma í veg fyrir annað hrun heldur ættu stjórnvöld frekar að huga að því að tryggja stöðugleika og ýta undir alþjóðahagkerfið.

„Bankarnir eru með hagnaði að vinna sig upp úr holunni,“ segir Soros í grein sinni.

„Að ætla sér að skera af hagnaði þeirra núna mun aðeins veikja kerfið enn frekar. Við þurfum að leyfa bönkunum að hagnast út úr vandræðunum.“

Umræður um endurbætur á regluverki fjármálastofnana hefur verið áberandi síðustu misseri. Í síðustu viku sagði Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka að aðskilja þyrfti viðskiptabanka og fjárfestingabanka til að minnka heildaráhættu í kerfinu. Ekki eru allir sammála þessu en breska fjármálaeftirlitið hefur þegar lýst því yfir að þeir bankar sem ætli sér að stunda áhættufjárfestingar þurfi að eiga meira eigið fé en aðrir.