George Soros segir að krísa sé á fjármálamörkuðum heimsins og að fjárfestar þurfi að sýna mikla varúð. Hann segir að Kína eigi í miklum erfiðleikum með að finna leiðir til að viðhalda miklum hagvexti og að með gengisfellingum sé landið að flytja vandamál sín til annarra landa. Aðlögunarvandi landsins sé krísa og ástandið á fjármálamörkuðum minni á krísuna 2008. Bloomberg greinir frá.

Hlutabréfamarkaðir um allan heim hafa lækkað í upphafi árs og eru lækkanirnar almennt raknar til ástandsins í Kína. Markaðsvirði hlutabréfa í heiminum lækkaði um 2.500 milljarða dollara, jafnvirði 327.000 milljarða króna, á fyrstu sex dögum þessa árs. Lækkanirnar eru orðnar svo miklar að þær virðast byrjaðar að smitast til Íslands, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag.

Soros er meðal annars þekktur fyrir að hafa tekið stöðu gegn breska pundinu árið 1992 með eftirminnilegum afleiðingum. Vogunarsjóður hans skilaði að meðaltali 20% ávöxtun á árunum 1969 til 2011. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er svartsýnn á útlitið, því árið 2011 sagði hann að skuldakreppan í Evrópu væri alvarlegri en fjármálakrísan árið 2008.