George W. Bush, bandaríkjaforseti kemur líklega til með að hafa það ágætt fjárhagslega eftir að hann stígur úr embætti.

Í umfjöllun Forbes tímaritsins kemur fram að ómögulegt er að segja til um hvað Bush mun þéna eftir að hann verður „atvinnulaus“ eins og það er orðað í umfjöllun Forbes..

Líkt og á Íslandi fá forsetar Bandaríkjanna laun til æviloka þannig að Bush í það minnsta fá um 200 þúsund Bandaríkjadali á ári hverju líkt og aðrir eftirlifandi fyrrverandi forsetar en þeir eru Bill Clinton, faðir hans George H.W. Bush og Jimmy Carter. (Árslaun sitjandi forseta nema um 400 þúsund dölum á ári.)

Þegar forsetar stíga úr embætti bíða þeirra gjarnan mikil ræðuhöld við ýmis tilefni, bókasamningar, ráðgjafastörf eða stjórnarseta í fyrirtækjum eða góðgerðarsamtökum. Þannig þéna þeir gjarnan mun meira eftir að þeir stíga úr embætti en á meðan þeir ráða ríkjum í Hvíta húsinu.

Forbes telur líklegt að Bush, eftir nokkur ár, bjóðast stjórnarseta í fyrirtækjum eða góðgerðarsamtökum auk þess að halda ræður fyrir fyrirtæki, hugveitur og aðra hagsmunahópa – bara ekki strax.

Samkvæmt umfjöllun Forbes er mjög ólíklegt að Bush láti mikið fyrir sér fara fyrstu mánuðina og hugsanlega árin eftir að hann stígur úr embætti. Til þess er hann einfaldlega allt of óvinsæll um þessar mundir.

Bush mun eins og kunnugt er láta af embætti eftir rétt rúman mánuð, nánar tiltekið þann 20. janúar n.k.

Laura gæti skrifað endurminningar á undan

Þá er talið ólíklegt að hans bíði „feitur bókadíll“ líkt og beið Bill Clinton þegar hann steig úr embætti fyrir átta árum. Samkvæmt heimildum Forbes hefur Bush verið ráðlagt að bíða í nokkur ár með slíka samninga.

Forbes telur þó að ekki sé innistæða til langs tíma litið fyrir óvinsældum Bush. Með tíð og tíma muni almenningur muna eftir honum sem manni sem tókst á við erfið verkefni og tókst þrátt fyrir allt að halda Bandaríkjunum öruggum í forsetatíð sinni. Þannig muni fólk fá áhuga á að lesa ævisögu hans eftir nokkur ár.

Viðmælandi Forbes telur að Laura Bush, eiginkona George Bush muni að öllum líkindum skrifa endurminningar sínar á undan honum. Þá telur Forbes að hún geti fengið útgáfusamning að verðmæti 5 milljón dala. Rétt er að taka fram að Hillary Clinton fékk á sínum tíma 8 milljónir dala fyrirfram fyrir að skrifa sínar endurminningar.

Clinton á grænni grein

Þá telur viðmælandi Forbes að Bush, ólíkt Bill Clinton, þurfi ekki á peningunum að halda þegar hann er orðinn „atvinnulaus“ en þegar Clinton kvaddi Hvíta húsið í byrjun árs 2001 skuldaði hann nokkrar milljónir dala. Þar vó mest mikill lögfræðikostnaður vegna Monicu Lewinsky hneykslisins.

Clinton nýtti tækifærið vel og fékk um 15 milljónid dala fyrir bók sína, My life en um 65% landsmanna voru ánægð með störf hans þegar hann hætti sem forseti.

Þá þénaði Clinton rétt rúma 10 milljón dali fyrir 54 ræður sem hann hélt í fyrra við ýmis tilefni.