George W. Bush, bandaríkjaforseti mun í ræðu síðar í dag halda því fram að núverandi ástand á fjármálamörkuðum sé ekki skipbrot hins frjálsa markaðshagkerfis.

Frá þessu er greint á vef BBC en Bush mun halda ræðuna á Wall Street í dag en hann er nú staddur í New York.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir að inngrip og aðgerðir stjórnvalda „lækni ekki öll mein,“ eins og það er orðað í frétt BBC.

Margir af helstu þjóðarleiðtogum heims munu um helgina hitta Bush í Washington til að ræða aðgerðir til að binda endi á fjármálakrísuna.

Þá hefur Bush þegar lýst því yfir að hann vilji finna leiðir til að efla alþjóðahagkerfið „án þess að finna upp hjólið á ný.“

Gert er ráð fyrir því að hann kynni tillögur sem feli í sér skýrari reglur um innlánsreikninga, nánari samvinnu alþjóðlegra eftirlitsstofnana auk þess sem hvatt verði til þess að fjármálaeftirlit landa auki sína samvinnu.

Þá mun Bush leggja til að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði efldir.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands – sem sækir fundinn um helgina – sagði í ræðu í París í dag að ljóst væri að Bandaríkjadalur væri ekki lengur eini alþjóðlegi gjaldmiðillinn. Hann sagði að aðstæður væru gerbreyttar frá því að Bretton Woods nefndin fræga fundaði eftir Seinni heimsstyrjöldina til að leggja drög að alþjóðlegu hagkerfi.

„Það sem virkaði árið 1945 virkar ekki endilega í dag,“ sagði Sarkozy í ræðu sinni.

Þá sagði Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands að styrkleiki evrunnar gerðu hana að aðlagandi gjaldmiðli. Hún varaði þó við því að seðlabankar heimsins gerbreyttu stefnu sinni um gjaldeyrisvaraforða.