Tekist hefur samkomulag milli Íslands og Indlands um gerð tvísköttunarsamnings. Samningsdrögin voru árituð af formönnum samninganefndanna á fundi sem haldinn var í Reykjavík í lok mars. Í vefriti utanríkisráðuneytisins kemur fram að stefnt er að því að samningurinn verði undirritaður eins fljótt og auðið er.

Þar kemur fram að samningurinn nær einungis til tekjuskatta og helstu efnisatriði hans varða 10% afdráttarskatt af arði, vöxtum og þóknunum. Að frumkvæði Indlands var tekið upp sérstakt takmarkandi ákvæði (LOB) sem ætlað er að tryggja að einungis þeir skattaðilar sem uppfylla skilyrði njóti ívilnana samningsins.

Jafnframt var samið um upplýsingaskipti á milli landanna varðandi þá skatta sem samningurinn nær til svo og um aðstoð við innheimtu skatta. Samkvæmt samningsdrögunum verður frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun tekna.

Talið er að gerð samningsins geti skipt miklu fyrir útrás íslenskra fyrirtækja og komi til með að styrkja samkeppnisstöðu þeirra.