Arion banki hefur gengið frá kaupréttarsamningum við 628 starfsmenn bankans. Í gegnum samningana geta kaup starfsmannanna á bréfum bankans samanlagt numið um 1,9 milljörðum króna yfir fimm ára tímabil.

Kaupréttirnir gilda fram til ársins 2026 og býðst starfsmönnum að kaupa hlutabréf fyrir 600 þúsund á ári í fimm ár á genginu 95,5 krónur á hlut, sem er um 14% undir núverandi gengi bréfa Arion banka. Verðið miðast við vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem var 3. febrúar síðastliðinn samkæmt tilkynningu frá bankanum.

Öllum fastráðnum starfsmönnum bankans var boðið að taka þátt og þáðu 628 starfsmenn boðið. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að verði kaupréttarsamningarnir nýtti að fullu geti starfsmenn keypt að 3.945.550 hluta á ári, sem samsvarar um 377 milljónum króna á ári eða samtals um 1,9 milljarða yfir árin fimm. Ekki er þó hægt að nýta kaupréttina fyrr en eftir ár eða í febrúar árið 2022 og svo í hverjum febrúarmánuði fram til ársins 2026.

Bréfin hækkað síðustu daga

Síðustu daga hefur verð bréfa í Arion banka hækkað umtalsvert og stóð í 109 krónum á hlut við lokun markaða í dag og hefur aldrei verið hærra. Haldist hlutabréfaverðið óbreytt geta starfsmennirnir keypt bréf fyrir 600 þúsund krónur á ári og svo selt með um 85 þúsund króna söluhagnaði, eða samanlagt 53 milljónir á ári fyrir alla starfsmennina, að því gefnu að starfsmennirnir haldi áfram störfum hjá bankanum. Nýjum fastráðnum starfsmönnum mun einnig bjóðast að gera kaupréttarsamning.

Hver afkoman fyrir starfsmennina verður að lokum mun þó velta á þróun hlutabréfaverðs Arion banka. Endar er markmið áætlunarinnar sagt vera að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni bankans.

Bréf bankastjóranna 330 milljóna virði

Samkvæmt innherjatilkynningu Arion banka tóku lykilstjórnendur bankans þátt í áætluninni, þar með talið Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Ásgeir Reykfjörð Gylfason aðstoðarbankastjóri. Benedikt á 1,9 milljónir hluta í bankanum sem metnir eru á um 207 milljónir króna og Ásgeir 1,15 milljónir hluta sem metnir eru á 125 milljónir króna.

Áætlunin byggir á samþykkt á aðalfundi Arion banka 17. mars 2020 þar sem stjórn bankans var veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun fyrir starfsfólk bankans. Kaupréttaráætlun var staðfest af ríkisskattstjóra 15. desember og er sögð í samræmi við 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.