Þórður Hermann Kolbeinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri DHL á Ísland og einn af fyrrverandi eigendum Pennans fyrir hrun hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Bankastofnanir hafa gert kröfur upp á 346 milljónir króna í bú hans. Skiptastjóri þrotabús Þórðar segir kröfurnar vegna persónulegra skulda Þórðar, sem séu að hluta í erlendri mynt.

Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóranum Kristjáni B. Thorlacius eru eignir í búinu sem munu ganga upp í kröfur. Skiptafundur hefur verið boðaður 8. október næstkomandi.

Þórður átti 40% hlut í félaginu Tírufjárfestingar sem hélt utan um 36% hlut í Pennanum. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri Tírufjárfestinga. Skuldir Pennans voru slíkar að þær voru dregnar fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út fyrir tveimur árum. Skuldir Pennans gagnvart Kaupþingi námu tæpum 7,5 milljörðum króna. Með öðrum skuldum námu þær rúmum 11,1 milljarði króna. Arion banki tók Pennan yfir vegna skulda í mars árið 2009.

Tíufjárfestingar hafa ekki skilað uppgjöri um árabil. Það eina sem liggur fyrir er uppgjörið fyrir árið 2007. Þá hagnaðist félagið um rúmar 90 milljónir króna. Eignir námu 689 milljónum króna, bókfært eigið fé nam tæpum 101 milljón króna. Skuldir, sem voru að stórum hluta í erlendri mynt, voru á sama tíma rúmar 588 milljónir króna.

Í umfjöllun DV um hús sem Þórður stóð í að endurbæta og standsetja við Granaskjól í Reykjavík kom fram að hann byggist ekki við að búa í húsinu þar sem bankinn muni koma til með að leysa það til sín vegna skulda.

Í sömu umfjöllun DV sagði ennfremur að skuldir Þórðar hafi numið tveimur milljörðum króna.