Mannvit hefur nú gert samning við Thorsil ehf. um byggingu kísilvers Thorsils í Helguvík. Samningurinn er alhliða samningur um hönnun, innkaup og umsjón framkvæmda.

Verðmæti samningsins er um 4,9 milljarðar króna og nær framkvæmd hans yfir þrjú ár. Fyrirvari er í samningnum um endanlega fjármögnun byggingarframkvæmda Thorsils.

Með þessum samningi hefur Mannvit tekið að sér að sjá um verkfræðilegan undirbúning að byggingu kísilversins, hafa umsjón með útboðum og gerð samninga við tækjaframleiðendur og verktaka, ásamt því að hafa yfirumsjón með framkvæmdum á meðan á byggingu kísilversins stendur.

„Við hjá Mannviti erum afskaplega ánægð og stolt yfir gerð þessa samnings. Þetta er einn umfangsmesti samningur á sviði orkufreks iðnaðar sem íslenskt verkfræðifyrirtæki hefur gert fram til þessa,“ er haft eftir Sigurhirti Sigfússyni í fréttatilkynningu. „Við framkvæmd hans mun nýtast sú reynsla og tækniþekking sem orðið hefur til hér á landi við áratuga þjónustu við fyrirtæki á sviði orkufreks iðnaðar.“