Bæjarráð Hafnarfjarðar gerir alvarlegar athugasemdir við þau áform að flytja Fiskistofu úr Hafnarfirði, að því er fram kemur í tilkynningu. Um sé að ræða fjölmennan og sérhæfðan vinnustað sem skipti bæjarfélagið miklu máli. Jafnframt lýsir bæjarráðið furðu yfir þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru þegar ákvörðunin var tilkynnt.

Í tilkynningunni lýsir bæjarráð einnig þungum áhyggjum af því hve rýr hlutur Hafnarfjarðar er orðinn þegar kemur að stofnunum og þjónustufyrirtækjum á vegum ríkisins. Af þeim sökum muni bæjarráð beita sér af fullum þunga gegn þessari þróun og fyrir því að bærinn beri ekki skarðan hlut frá borði þegar kemur að staðsetningu stofnana og þjónustufyrirtækja hins opinbera.

Umdeild aðgerð

Flutningur Fiskistofu til Akureyrar frá Hafnarfirði hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Margir hafa líst skoðun sinni á aðgerðinni, sem er mjög umdeild. Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður og fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, hefur óskað eftir fundi í fjárlaganefnd til að ræða fyrirhugaðan flutning. Hún sendi Vigdísi Hauksdóttur, formanni nefndarinnar, bréf þess efnis í morgun.

Í bréfi Bjarkeyjar segir að full þörf sé á fundi í fjárlaganefnd vegna málsins. Það sé ljóst að þótt markmiðið með flutningnum sé jákvætt, þá sé framkvæmdinni stórlega ábótavant. „Efna hefði átt strax í upphafi til náins samráðs við starfsfólk og sýna með því fagmennsku og vandaða stjórnsýslu. Einnig virðist vera uppi lögfræðilegt álitamál um lögmæti flutningsins, auk þess sem fjárheimild fyrir kostnaðinum vegna flutningsins, sem talinn er hlaupa á hundruðum milljóna, hefur ekki fengist hjá Alþingi í neinni mynd,“ segir í bréfinu.