Greiningardeild Arion banka gerir athugasemdir við orð Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra, sem hann lét falla í viðtali við Viðskiptablaðið og birt er í blaðinu í dag. Viðskiptablaðið leitaði viðbragða frá Seðlabankanum við kynningu Greiningardeildar frá 10. maí síðastliðnum þar sem efnahagshorfur deildarinnar voru kynntar. Í viðtali við Arnór kemur fram að hann telur forsendur Greiningardeildarinnar of svartýnar.

Niðurstöður deildarinnar eru meðal annars þær að hratt muni ganga á forða Seðlabankans á næstu árum og eru tvær ástæður sérstaklega taldar til. Í fyrsta lagi sé allur forðinn tekinn að láni, en borga þurfi niður lánin að stórum hluta á næstu árum. Í öðru lagi séu vísbendingar um að afgangur af viðskiptum við útlönd skapi ekki nægan gjaldeyri til að greiða niður erlendar skuldir, þá sérstaklega ef núverandi aðstæður til endurfjármögnunar haldast óbreyttar. Að mati Greiningardeildar blasir því tvennt við; veiking krónunnar og/eða aukin skuldsetnin?g gjaldeyrisforðans. Vegna þessa sé geta til þess að mæta útflæði við afnám hafta takmörkuð, nema með aukinni skuldsetningu sem forðinn má ekki við.

Arnór segir meðal annars að Greiningardeildin virðist skoða ráðstöfun krónueigna þrotabúanna til erlendra aðila án þess að skoða dæmið í heild. Samkvæmt mati Seðlabankans munu erlendir aðilar fá um 382 milljarða úr þrotabúum en á móti koma um 267 milljarðar af gjaldeyri inn í landið, vegna krafna innlendra aðila. „Ef andvirði hluta gjaldeyriseigna er greitt til innlendra aðila samtímis eða áður en krónueignir eru greiddar til erlendra aðila, sem virðist vera líklegast, mun ekki ganga óhóflega á forðann. Við lítum ekki á þetta sem neinn stórkostlegan vanda. En auðvitað er margt óljóst, til dæmis með verðmæti erlendra eigna. En líkt og komið hefur fram í fréttum er líklegt að markaðsvirði þeirra verði í einhverjum tilvikum hærra en bókfært virði í dag.“

Athugasemdir Greiningardeildar Arion banka:

„Í fyrsta lagi er um nokkrar rangfærslur að ræða hjá Arnóri, hann gefur sér að við gefum okkur ákveðnar forsendur, sem hann veit ekki hverjar eru, og dregur kolrangar ályktanir útfrá því. Arnór hefur ekki leitað eftir útskýringum á erindi okkar og var ekki viðstaddur þegar það var sett fram.

1)      Greiningardeild er ekki að segja að ríkissjóður muni til fjölda ára ekki hafa aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.

2)       Hinsvegar mun gjaldeyrisforðinn, m.v. núverandi viðskiptaafgang (sem skilar sér til landsins), minnka. Þó svo að ríkissjóður fái aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum  þá mun skuldsetning forðans, að öðru óbreyttu, aukast og nettó staða hans þar með versna. Í gegnum allt okkar erindi gerum við ráð fyrir því að Seðlabankinn nýti ekki eina einustu evru af forða sínum til að losa um stöður erlenda aðila hér á landi. Ef slík áform eru uppi þá þá eru þau ógnvekjandi.

3)      Arnór segir að útgreiðslur úr þrotabúum verði með þeim hætti að það leiði ekki til óstöðugleika krónunnar. Þannig gefur hann sér að hægt verði að stemma gjaldeyrisgreiðslur á undan útgreiðslum. Það má vel vera að slík þróun verði ofan á. Slíkt breytir hinsvegar engu um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna þeirra innlendu eigna sem falla í skaut erlendra aðila við skiptingu eigna þrotabúanna. Á einhverjum tímapunkti þarf að losa þessar stöður, að hluta til eða öllu leyti. Rétt er að benda á að vissulega geta tölur í þessu samhengi breyst. Ef Íslendingar fá greiddar erlendar eignir út úr þrotabúunum þá fá erlendir aðilar einfaldlega meira af innlendum eignum í sinn hlut. Nettó staðan breystist ekkert við það, hvort heldur sá vandi sem þarf að leysa.

4)      Ennfremur má deila um hversu heildstætt sé að horfa á afnám gjaldeyrishafta með þeim augum að einhvern tímann seinna verði leyst um innlendar eignir erlendra aðila vegna þrotabúanna. Eigi tímarammi afnáms gjaldeyrishafta að standa þarf að leysa þennan hluta vandans – ella þurfa gjaldeyrishöftin að vara lengur – það kann vel að vera að Arnór vinni eftir öðru tímaplani en stjórnvöld. Eins og áður kom fram telur hann að við teljum að Seðlabankinn muni nýta dýrmætan gjaldeyrisforða til að losa um þessar stöður. Það er einfaldlega rangt.  Til að skoða „dæmið í heild“ má spyrja sig hversu raunhæft sé að afnema gjaldeyrishöft og líta framhjá þessari stærð, hvað þá að tala um hana af léttúð.

5)      Í lok „andsvara“ Arnórs lýsir hann íslensku hagkerfi eins og það var hér á árum áður. Að það sé ekki endilega skammtímasamhengi milli styrkingar á gjaldmiðli og viðskiptaafgangi, né slíkt samband milli viðkiptahalla og veikingar. Hér virðist Arnór loka augunum fyrir þeirri einföldu staðreynd að þetta lögmál á algjörlega við í landi þar sem haftabúskapur er við lýði. Viðskiptahalli verður ekki fjármagnaður með erlendum lántökum eins og áður tíðkaðist. Afborganir af erlendum lánum fyrirtækja og sveitarfélaga verður ekki mætt með öðru en gjaldeyrissköpun eða aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum – því miður er hvorugu skilyrðinu mætt eins og þróunin er í dag. Velta má fyrir sér hversu gott veganesti það er inn í framtíðina að ætla að reiða sig eingöngu á erlenda lánsfjársmarkaði.“

Lesa má viðtalið við Arnór Sighvatsson, sem Greiningardeildin gerir athugasemdir við, í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.