Bretar og Hollendingar gera meðal annars athugasemdir við fyrirvara Alþingis við úthlutun úr þrotabúi Landsbankans, hið svokallaða Ragnars Hall ákvæði Icesave-ríkisábyrgðarinnar. Þetta segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.

Stjórnvöld upplýstu í dag að „óformlegar hugmyndir", eins og það er orðað, hefðu borist frá Bretum og Hollendingum við Icesave-fyrirvara Alþingis. Stjórnvöld vildu ekki upplýsa um innihald athugasemdanna né heldur hvernig þau hygðust bregðast við þeim.

Ekki liggur til að mynda ljóst fyrir hvort þau hyggist fara með málið aftur fyrir Alþingi. Í lokafyrirvörum þingsins við Icesave-ríkisábyrgðina kemur þó skýrt fram að fjármálaráðherra fái ekki heimild til að veita ábyrgðina nema Hollendingar og Bretar samþykki fyrirvara Alþingis.

Þær upplýsingar hafa lekið til fjölmiðla í dag að Hollendingar og Bretar geri einna helst athugasemdir við þann fyrirvara Alþingis að taka þurfi viðræður samningsaðila upp á nýtt árið 2024 standi þá eitthvað eftir af láninu.

Láti reyna á forgang sjóðsins

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru þó líka gerðar athugasemdir við fleiri atriði eins og til dæmis Ragnars Halls ákvæðið, svonefnda, eins og fyrr sagði.

Það ákvæði var sett inn í Icesave-frumvarpið við aðra umræðu um málið á þingi. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að leyst verði úr ágreiningi um forgang innstæðutryggingasjóðs í þrotabúið hjá „þar til bærum úrskurðaraðilum," eins og það er orðað í fyrirvaranum.

Orðrétt segir um þetta:  „Ábyrgðin takmarkast við að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Verði niðurstaðan á þann veg skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um áhrif þess á samningana og skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta."

Síðan segir að fari ekki fram viðræður samkvæmt þessu ákvæði eða þær leiði ekki til niðurstöðu geti Alþingi takmarkað ríkisábyrgðina „í eðlilegu samræmi við tilefnið", eins og það er orðað.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði um þennan fyrirvara í umræðum á Alþingi að þeir „þar til bærir aðilar" sem vísað væri til væri slita- eða skiptastjórn þrotabús Landsbanka Íslands, með málskotsrétti til héraðsdóms og Hæstaréttar og eftir atvikum að fengnu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.

Ragnar taldi alvarleg mistök í samningunum

Þessir fyrirvarar Alþingis hafa verið kenndir við Ragnar Hall lögmann en hann skrifaði greinar um málið í fjölmiðlum í sumar, þegar þingið var með Icesave-frumvarpið til meðferðar.

Í grein í Fréttablaðinu sagði hann til að mynda að gerð hefðu verið alvarleg mistök í Icesave-samningunum sem gengju út á að „láta bresk og hollensk yfirvöld njóta jafnræðis við úthlutun úr þrotabúi gamla Landsbankans á við íslenska tryggingarsjóðinn þrátt fyrirað íslenski sjóðurinn ábyrgist fyrstu 20.887 evrurnar og ætti samkvæmt öllum venjum að njóta forgangs."

Hann sagði að tryggingasjóðirnir ættu að tryggja innstæðueigendum ákveðna lágmarksgreiðslu. „Af því leiðir að þegar þeir hafa gert það hlýtur úthlutunin fyrst að ganga til uppgjörs á þeim hluta sem tryggingasjóðirnir hafa leyst til sín. Á sama hátt hlýtur úthlutunin fyrst að ganga upp í kröfur íslenska tryggingasjóðsins áður en sá breski fær nokkuð, því að skuldbinding breska sjóðsins kemur á eftir íslenska sjóðnum. Sá breski greiðir aðeins mismunarfjárhæð á 20.887 evrum og 50.000 evrum og þarf ekkert að greiða ef fjárhæðin er lægri en 20.887 evrur," skrifaði hann meðal annars.

Icesave-ríkisábyrgðin var sem kunnugt er samþykkt á Alþingi í lok ágúst. Áður hafði þingið gert efnahagslega og lagalega fyrirvara við ríkisábyrgðina. Í þeim fólust m.a. Ragnars Hall ákvæðið sem fyrr sagði.

Þá samþykkti Alþingi það skilyrði við þriðju umræðu að fjármálaráðherra fengi ekki heimild til að veita ábyrgðina nema Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.