Óvissa ríkir um endurgreiðslur til kröfuhafa ALMC, áður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, af breytanlegum skuldabréfum að andvirði 589 milljóna evra, jafnvirði um 95 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag sem vitnar í ársreikning ALMC fyrir árið 2012.

Fram kemur í ársreikningnum, sem var samþykktur á aðalfundi félagsins hinn 15. ágúst sl., að Seðlabanki Íslands hafi komið þeim skilaboðum áleiðis til ALMC að bankinn væri að endurskoða skilmála skuldabréfanna. Morgunblaðið segir líklegt að gera þurfi breytingar á greiðsluskilmálum í framhaldinu að kröfu Seðlabankans til að tryggja að ekki verði hægt að hraða gjaldeyrisgreiðslum til erlendra kröfuhafa ALMC á grundvelli svokallaðs uppsópsákvæðis.