Vinnubrögð Félagsbústaða hf. við innkaup eru ekki nægilega vönduð og að stærstum hluta eru ekki gerðir skriflegir samningar vegna innkaupa við stórframkvæmdir. Þetta kemur fram í úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna reksturs stjórnarhátta og hlutverks Félagsbústaða.

Að frátöldum fjármagnskostnaði er viðhaldskostnaður stærsti gjaldaliður Félagbústaða en hann nemur um 500‒600 milljónum á ári. Dreifing viðskipta getur að mati Innri endurskoðunar ekki talist eðlileg sem m.a. má ráða af því að aðeins 19 af 106 viðhaldsbirgjum skiptu með sér 80% allra viðskipta vegna verkkaupa og aðeins 1‒2 birgjar voru með 80% eða meira af viðskiptum í flokkunum trésmíði, pípulögn, raflögn, múrverk og veggfóðrun.

Í tilkynningu frá Innri endurskoðun kemur fram að ekki hefur verið brugðist við tilmælum með fullnægjandi hætti og að Félagsbústaðir geti ekki sýnt fram á hagkvæmni innkaupa sinna þar sem í fæstum tilfellum er hægt að bera verð sem þeir fá saman við mismunandi tilboð og sjaldnast eru verk boðin út.

Í úttektinni kemur enn fremur fram að almennt fylgi leiguverð Félagsbústaða ákveðinni reikniformúlu en að á því eru frávik. Lagt er til að haldin sé skrá um íbúðir sem ekki fylga reikniformúlunni til að tryggja að leiguverð taki breytingum samhliða öðrum, að slík frávik séu samþykkt og að jafnræðis sé gætt á meðal leigutaka.