Ríkisstjórnin undirritaði í lok febrúar fjárfestingasamning við Matorku ehf. vegna áætlana fyrirtækisins um að reisa 3 þúsund tonna fiskeldisstöð uppi á landi við Grindavík. Samkvæmt samningnum fær Matorka 426 milljóna styrk í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum. Fyrirtækið á einnig rétt á þjálfunarstyrk upp á 2 milljónir evra eða 295 milljónir króna. Ef það gengur eftir fær Matorka 721 milljónir króna í styrk vegna fiskeldisstöðvarinnar. Það er 59% af heildarfjárfestingarkostnaðinum, sem nemur 1.217 milljónum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að auðvitað væri best ef skattaumhverfið hér væri það hagstætt að fyrirtæki kæmu hingað einfaldlega vegna þess. Það væri hins vegar ekki reyndin og þess vegna væri verið að gera fjárfestingarsamninga vegna nýfjárfestinga. Hún segir að slíkir samningar séu gerðir í flestum löndunum í kringum okkur. Stefnan stjórnvalda sé hins vegar sú að hafa hér skattaumhverfi sem laðar fyrirtæki til landsins.

Gagnrýni fiskeldismanna

Landssamband fiskeldisstöðva gagnrýnir fjárfestingasamninginn við Matorku harðlega og telur hann fela  í sér mismunun og röskun og samkeppnismarkaði. Um þessa gagnrýni segir ráðherra: „Við gerum ekki upp á milli atvinnugreina eða hvort það séu starfandi fyrirtæki í þeim greinum sem nýfjárfestingin tekur til." Hún segir að ef það yrði gert væri til dæmis ekki hægt að gera fjárfestingasamning við nýtt gagnaver því það væru önnur þegar starfandi hér á þeim markaði.

Hvað Matorku varðar þá segir hún að verkefni fyrirtækisins hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir fjárfestingarsamningi. Hún segir ekki útilokað að önnur fiskeldisfyrirtæki, sem þegar séu starfandi en vilji fara í frekari fjárfestingar, geti gert fjárfestingasamning við ríkið. Verkefnið þurfi bara að uppfylla skilyrðin.

Í samningnum við Matorku er kveðið á um að fyrirtækið eigi rétt á 295 milljóna króna þjálfunaraðstoð. Ragnheiður Elín segir að þetta ákvæði hafi verið inni í öllum fjárfestingasamningum en aldrei verið nýtt. Ef Matorka fengi þessa aðstoð þá yrði hún varla 295 milljónir því það væri hámarkið. Aðstoðin væri veitt eftir ákveðnum hlutfallsreglum.

4 af 5 síðustu samningum vegna verkefna á Reykjanesi

Fjórir af síðustu fimm fjárfestingasamningum hafa verið gerð við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp á Reykjanesi, sem er í kjördæmi ráðherra. „Þetta er algjör tilviljun," segir Ragnheiður Elín og bendir á að ef skoðað sé lengra tímabil komi í ljós að fjárfestingasamningar hafi verið gerðir vegna verkefna á Bakka við Húsavík, Grundartanga, Akureyri og í Þorlákshöfn.

„Núna raðast þetta bara þannig að þau verkefni sem eru komin lengst eru flest á Reykjanesi. Fyrirtækin sem vilja byggja upp þar horfa meðal annars á orkuverið, höfnina í Helguvík og Keflavíkurflugvöll. Síðan er Reykjanesbær búinn að undirbúa jarðveginn fyrir þessa uppbyggingu í ansi langan tíma."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .