*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 18. janúar 2020 19:01

Gera gögnin gagnlegri

Skýjaþjónusta getur að sögn sérfræðings veitt fyrirtækjum nýja sýn á gögn sín og þannig gert þau gagnlegri.

Sveinn Ólafur Melsted
Þröstur Sigurjónsson, leiðtogi viðskiptaþróunar hjá Sensa.
Gígja Einarsdóttir

Undanfarin ár hafa svokallaðar skýjaþjónustur verið að ryðja sér til rúms og hefur fjöldi fyrirtækja sem nýta sér slíkar lausnir hér á landi verið sívaxandi. Þröstur Sigurjónsson, leiðtogi viðskiptaþróunar hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Sensa, segir að fjölmörg fyrirtæki reiði sig á skýjalausnir Microsoft í starfsemi sinni og varðveiti þar mikil verðmæti í formi ýmissa gagna og upplýsinga um reksturinn. Á undanförnum misserum hafi Microsoft gert umtalsverðar breytingar á leyfismálum og skýjalausnum sínum.  Hann segir að til mikils sé að vinna fyrir fyrirtæki þegar kemur að því að nýta þær lausnir sem þau hafa nú þegar aðgang að.

„Microsoft hefur farið úr því að vera framleiðandi hugbúnaðar sem selur afnot af hugbúnaði sínum yfir í að selja þjónustur sem þeir reka sjálfir í sínum eigin gagnaverum, sem innifela í sér afnot af hugbúnaðarlausnum sínum, að viðbættri þjónustu, og rukka fyrir það mánaðarlegt gjald. Þar má helst nefna Microsoft Office hugbúnaðarpakkann ásamt Windows 10 stýrikerfinu, sem er í boði í Microsoft 365 áskriftarleiðinni."

Að sögn Þrastar er Microsoft markvisst að ýta notendum sínum yfir í þetta nýja viðskiptamódel.

„Viðskiptamódelið felur í sér að notandinn kaupi aðgang að skýjaþjónustunni í stað þess að kaupa hugbúnaðarpakka, bæði fyrir Office-hlutann og önnur hugbúnaðarleyfi fyrir fyrirtæki sem reka sína eigin netþjóna. Þetta gera þeir markvisst með því að gera uppbyggingu leyfiskaupa óhagstæðari ef notendur kjósi að kaupa og reka sína eigin þjónustu í eigin kerfissal. Auk þess setja þeir allar nýjungar fyrst inn í skýjaþjónustuna og svo síðar í hugbúnaðinn sem fyrirtæki geta keyrt í sínu eigin umhverfi.

Skýjaþjónusta Microsoft er orðin mjög öflug og inn í hana eru komin ný verkfæri sem gera fyrirtækjum kleift að vinna á nýjan hátt. Þegar gögn fyrirtækisins eru komin inn í skýjaþjónustuna þá er hægt að beita þeim verkfærum sem eru í boði í lausninni, þannig að hægt sé að fá nýja sýn á gögn fyrirtækisins, gera gögn fyrirtækjanna gagnleg með því að gera þau sýnilegri og aðgengilegri, ásamt því að einfalda hópavinnu."

Samhliða tækniframförum hefur gagnaöryggi orðið sífellt mikilvægara,  þar sem ógn steðjar að  gögnum fyrirtækja  frá óprúttnum aðilum sem  sjá hagnaðartækifæri í að komast yfir gögnin. Þröstur segir að meðal helstu kosta skýjalausna sé að tiltölulega lítil fyrirtæki geti fært sig yfir í slíka þjónustu og þannig virkjað mikið magn af öryggisstillingum á hagkvæman hátt.

„Þannig getur t.d. lítill fjárfestingabanki uppfyllt þær öryggiskröfur sem til hans eru gerðar, án þess að fara í mikla innviðauppbyggingu og fjárfestingar, sem bankarnir og fleiri stór fyrirtæki hafa þurft að uppfylla í gegnum tíðina. Öryggisviðbæturnar sem eru í skýjaþjónustum eru langt umfram það sem flest fyrirtæki gætu gert upp á eigin spýtur. Það er mikill fjöldi af öryggislausnum í skýjaþjónustunni sem fela í sér allt frá því að koma í veg fyrir aðgang óprúttinna aðila að gögnunum yfir í það að hjálpa til við rannsóknarvinnu í kjölfar öryggisatvika." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér