Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir embættið nú skoða hvort þörf sé á að gera breytingar hjá embættinu á ábendingahnappi sem embættið hefur haldið úti á heimasíðu sinni í kjölfar nýlegra úrskurða Persónuverndar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Persónuvernd úrskurðaði fyrir stuttu að sambærilegur hnappur á heimasíðu Tryggingastofnunar væri ólöglegur og þurfti stofnunin að fjarlægja hann. Bryndís segir að ábendingum til skattrannsóknarstjóra hafi farið fjölgandi undanfarin ár.

„Sumar ábendinganna berast embættinu undir nafni þess sem þær sendir, en flestar berast undir nafnleynd. Nafnlausar ábendingar geta hvort heldur borist bréfleiðis, með símtali, með komu á skrifstofu embættisins eða í gegnum ábendingahnappinn á vefsíðunni,“ segir Bryndís.  Hún segir skattinn ekki gera greinarmun á því með hvaða hætti ábendingar berist.