*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 16. október 2020 17:50

Gera kaffimál úr kaffikorgi

Nýtt íslenskt fyrirtæki ætla að útrýma einnota kaffimálum með nýju „umhverfismáli“. Kaffi drukkið úr máli úr kaffi.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Umhverfismálið er nýtt íslenskt fjölnota kaffimál sem framleitt er úr endurunnum kaffikorgi, sem og öðrum lífrænum efnum.
Elías Orri Guðbjartsson er einn þeirra sem að nýja kaffimálinu standa sem hann segir ilma eins og kaffi frá náttúrunnar hendi, enda úr kaffi, og smakkist því hver bolli því þeim mun betur fyrir vikið.

„Eftir margra mánaða vinnu er þessi litla hugmynd sem snérist um að bæta kaffiupplifun landsmanna og stuðla að umhverfisvænni lifnaðarháttum loksins orðin að veruleika,“ segir Elías Orri í tilkynningu. „Umhverfismálið er fjölnota kaffimál sem framleitt er úr endurunnum kaffikorgi og öðrum lífrænum efnum og gerist því ekki umhverfisvænna!“

Til að binda saman kaffikorginn eru notaðar niðurbrjótanlegar líffjölliður (e. biopolymers) sem eru unnar úr beðmi, sterkju, viði, náttúrulegri kvoðu og olíum. Því er bindiefnið algjörlega laust við alla hráolíu, melamín kvoðu eða plastagnir að því segir á vef félagsins.

Umhverfismálið megi jafnframt setja í uppþvottavél, og það sé 100% endurvinnanlegt og brotnar niður í náttúrunni. Loks fæst 40 krónu afsláttur af kaffi með notkun Umhverfismálsins hjá bæði Te og kaffi og hjá Kaffitári.

Loks fæst 40 krónu afsláttur af kaffi með notkun Umhverfismálsins hjá bæði Te og kaffi og hjá Kaffitári. Á heimasíðu félagsins er hægt að kaupa Umhverfismálið á 3.490 krónur, en einnig er hægt að kaupa Ferðalokið svokallaða stakt á 890 krónur.