Fólk sem sækir um vinnu í ferðaþjónustu gerir í meiri mæli en áður kröfu um að laun þeirra séu ekki gefin upp til skatts. Þetta getur sett vinnuveitendur í erfiða stöðu á háannatímum þegar mikil eftirspurn er eftir starfsfólki. Fram kom á fundi um skattsvik í ferðaþjónustu í gær að þörf sé á upplýstri umræðu um skattsvik. Íslendingar séu ekki mjög næmir fyrir skattsvikum. Því þurfi að breyta.

Á fundinum var kynnt skýrslan Skattsvik í ferðaþjónustu: Umfang og leiðir til úrbóta eftir þá Árna Sverri Hafsteinsson og Jón Bjarna Steinsson hjá Rannsóknastofnun atvinnulífsins við Háskólann á Bifröst.

Í skýrslu þeirra segir:

„Við vinnslu verkefnisins heyrðust sögur af kokkum, þjónum, plötusnúðum, dyravörðum, rútubílstjórum, námsmönnum, fólki á atvinnuleysisbótum ásamt einstaklingum á örorkubótum sem ekki var hægt að fá í vinnu öðruvísi en að borga þeim svört laun... Meðal þeirra hugmynda sem rætt var um voru hugmyndir eins og að hækka frítekjumark lánþega LÍN, gefa bótaþegum kost á því að vinna tímabundið yfir sumarmánuðina án þess að tapa bótarétti að hausti og svo hugsanlega að finna leiðir til þess að gera það eftirsóknarverðara fyrir fólk að ná sér í aukatekjur með aukavinnu án þess að stór hluti þeirra fari í skatt. Fólk sem rætt var við í veitingarekstri sagði að mjög erfitt væri að fá hæft fólk til að vinna slík störf án þess að greiða þeim svart þar sem margir væru í annarri vinnu á daginn.“

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að gera megi ráð fyrir því að frá árinu 2010 til ársloka 2013 hafi velta upp á rúma 17,5 millj­arða í gistiþjón­ustu á einn eða ann­an hátt ekki verið gef­in upp til virðis­auka­skatts. Eru þá ótald­ir aðrir skatt­stofn­ar rík­is og sveit­ar­fé­laga. Árni Sverr­ir Haf­steins­son, ann­ar höf­unda skýrslu um skattsvik í ferðaþjón­ustu, áætlaði þetta að beiðni Morg­un­blaðsins.

Fjallað er ítarlega um skýrsluna í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaði dagsins hér að ofan undir liðnum tölublöð .