Óháð baráttu um formennsku í Sjálfstæðisflokknum segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sig og Bjarna Benediktsson vera samherja. „Ég styð hann heilshugar sem formann Sjálfstæðisflokksins,“ segir Kristján Þór í ítarlegu viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Þar ræðir hann stöðu Sjálfstæðisflokksins, fyrstu vikurnar í stóli ráðherra og nauðsynlegar breytingar á íslensku heilbrigðiskerfi. Hér má lesa kafla úr viðtalinu sem ekki rataði í prent. Þar ræðir Kristján prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins í ljósi líflegrar byrjunar á oddvitaslag í Reykjavíkurborg.

Eiga ekki að upphefja sig á kostnað annarra

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar og baráttan virðist kröftuglega hafin í Reykjavík. Styður þú einhvern ákveðinn þar?

"Nei, það geri ég ekki og mun ekki gera," segir Kristján Þór. " Ég móta mér afstöðu til einstaklinga í stjórnmálum hvort sem það er innan míns eigin flokks eða einstaklinga í öðrum flokkum eftir því fyrir hvaða gildi viðkomandi stendur og hvernig hann ber sín mál fram og berst fyrir sínum áherslum. Ég virði stjórnmálamenn fyrir staðfestu, heiðarleika og eindrægni - í öðrum stjórnmálaflokkum líka," segir Kristján Þór.

"En þegar maður horfir inn á við í Sjálfstæðisflokknum þá er frambjóðendum stundum gerðar upp skoðanir. Gefið er til kynna að einhver standi fyrir eitthvað annað en það sem hann segir og skrifar. Ef það er eitthvað sem mér finnst skorta á, bæði innan Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnmálaflokka, þá er það umburðarlyndi fyrir mismunandi skoðunum. Mér líður stundum eins og nýjar hugmyndir séu bannaðar á Íslandi. Styrkleiki Sjálfstæðisflokksins hefur verið sá að leyfa mismunandi skoðanir og viðhorf, enda er það í anda sjálfstæðisstefnunnar að til sé farvegur fyrir samkeppni hugmynda. Það er og hefur verið mikið umrót í íslensku þjóðfélagi og það snertir alla stjórnmálaflokka.

Ég tel það mjög áríðandi að við förum að sýna meira umburðarlyndi fyrir ólíkum skoðunum. Það þýðir ekki að við eigum ekki að takast á- þvert á móti því skoðanaskipti og ágreiningur skilar okkur líka áfram. Skoðanaágreiningur er eðlilegur, heilbrigður, ef að menn hafa heilbrigði til að takast á með þeim hætti," bætir Kristján Þór við og segist vona að fólk fari fram í sveitastjórnarkosningar á eigin forsendum og málefnum í stað þess að hjóla í aðra frambjóðendur.

"Menn þurfa að leggja eigin forsendur og verðleika í dóm flokksfélaga og síðan kjósenda, en ekki upphefja sig á kostnað annarra."

Nánar er rætt við Kristján Þór Júlíusson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur getan nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.