IFS Greining telur að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti sína um 150 punkta en stýrivaxtaákvörðun bankans verður birt á morgun.

„Óvarlegt er að reka peningamálastefnu með neikvæðum raunvöxtum til lengri tíma ef ætlunin er að afnema gjaldeyrishöft,“ segir í stýrivaxtaspá IFS Greiningar.

„Núverandi raunstýrivextir Seðlabankans eru aðeins 0,4% en verðbólgan nú í febrúar var 17,6%. Hins vegar hefur verðbólguhraðinn gengið hratt niður og svokölluð 3 mánaða verðbólga var 10,9% í febrúar. Ef verðbólguspá okkar fyrir mars gengur eftir verður 3 mánaða verðbólga komin í 4,5%.“

IFS telur að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti í fyrsta skrefi þar sem bankinn mun horfa meira á núverandi- og framtíðar verðbólgu.

„Að okkar mati skiptir ekki mestu máli fyrir efnahagslífið eða fjármálamarkaði, hver nákvæm tímasetning er á einstaka lækkunum eða hversu mikið þeir munu lækka í hvert skipti. Lykilatriði er hversu hratt vextirnir lækka og hversu langt þeir hafa farið þegar vaxtalækkunarferlinu lýkur.“

Þá kemur fram að við útgáfu síðustu peningamála þann 29. janúar lagðist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gegn stýrivaxtalækkun þvert á skoðun bankastjórnarinnar sem taldi rétt að lækka stýrivexti.

Eins og komið hefur fram telur sjóðurinn nú að svigrúm hafi skapast til stýrivaxtalækkunar, út frá nýjustu upplýsingum. Ræður þar mestu að verðbólgan virðist hafa náð hámarki. Auk þess sé atvinnuleysi meira og eftirspurn heldur minni en gert var ráð fyrir í haust er sjóðurinn gaf út hagspá sína fyrir Ísland.

Spá 5% stýrivöxtum í lok ársins

Þá telur IFS Greining að stýrivextir muni lækka hratt á komandi mánuðum og verði komnir í um 7,5% seinni part árs og lækki niður í 5% undir lok árs. Samkvæmt spá IFS Greiningar verða vextir lægstir um 4,5%.

„Þó við teljum allar líkur á því að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti þann 19. mars er vissulega möguleiki á að bankinn fresti lækkun eitthvað áfram,“ segir í spá IFS.

„Ein skýring á því kynni að vera að bankinn vilji meiri vissu fyrir hjöðnun verðbólgu. Önnur skýring væri sú að bankinn vilji sýna í verki að hann sé ekki háður pólitískum þrýstingi.“