Greiningadeild J.P. Morgan gerir ráð fyrir 45% minni hagnaði hjá Merrill Lynch og segir að Merrill Lynch, sem er þriðji stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna komi til með að þurfa að afskrifa það mikið fjármagn að verulega dragi úr hagnaði bankans.

Þegar hafði J.P. Morgan gert ráð fyrir 5 dala hagnaði á hlut í hagnað en lækkar viðmið sitt nú niður í 2,75 dali á hlut . Kennert Worthington, sérfræðingur hjá J.P. Morgan segir að bankinn muni hagnast um 5,09 dali á hlut árið 2009 en áður hafði verið gert ráð fyrir 5,57 dölum á hlut.

Merrill Lynch hefur afskrifað um 24,5 milljarð bandaríkjadali frá því í byrjun árs 2007 og segir Worthington að búast megi við um 5 milljarða dala afskriftum í viðbót.

Einkunn J.P. Morgan á Merrill Lynch helst þó „hlutlaus“ þannig að hvorki er ráðlagt að kaupa né selja í bankanum að mati greiningadeildarinnar.