Að sögn Hermanns Guðmundssonar forstjóra N1 gera þeir ráð fyrir 8% samdrætti á einstaklingsmarkaði fyrir eldsneyti á þessu ári. Að sögn Hermanns hafa tölur um 12 til 14% minni akstur bein áhrif á eldsneytisnotkun sem hefur þannig dregist verulega saman.

Hermann sagði að enn væru þeir að sjá svipaðar tölur í eldsneytissölu til útgerðar- og flugfélaga. Strax í október hafi verið hægt verulega á akstri einstaklinga og sú þróun hefur verið óslitin síðan. Þannig hafi verið verulegur samdráttur í nóvember og sennilega sá mesti í desember. Hann sagðist telja að í janúar hafi verið ekið um 12 til 13% minna ekið en á sama tíma og í fyrra sem var reyndar metmánuður.

„Þá er komin endir á mjög margar framkvæmdir, bæði vegna Kárahnjúka og Reyðarfjarðar og víða. Sú eldsneytisnotkun er horfin út úr kerfinu og  ekkert óeðlilegt við það. Við spáum því að einstaklingsmarkaðurinn dragist saman um 8% fyrir árið í heild. Hvað gerist annars fer eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar en hún hefur talað um að ráðast í vegagerð sem hefur talsverða eldsneytisnotkun í för með sér."