Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir því að sala á síðasta ársfjórðungi verði viðunandi og bílasala ársins verði um 4500 bílar.

,,Við endurskoðum okkar áætlanir um bílasölu einu sinni í mánuði og spáum nú að salan verði um 4500 bílar í versta falli. Mjög strembið fyrri part árs en síðan skáni ástandið seinnipart árs og verði orðið viðunandi á síðasta ársfjórðungi," sagði Egill.

Að sögn Egils hafa starfsmenn Brimborgar verið í mjög góðu og nánu samstarfi við birgja fyrirtækisins og sérstaklega síðan krónan byrjaði að gefa eftir í mars 2008. Þá strax var ljóst að halla færi undan fæti á bílamarkaði.

,,Við höfum fengið mjög góðan stuðning frá okkur birgjum síðan þá hvort sem um er að ræða lægra verð eða lengri greiðslufresti. Markmiðið að laga birgðir að minni markaði. Árangurinn hefur verið framar vonum, í reynd ótrúlegur, og finnum við að meira en 40 ára traust samskipti með reynslumikla starfsmenn og sömu eigendur skiptir höfuðmáli í samskiptum við birgjana. Það skapar trúverðugleika. Varðandi spurningu þína um aðkomu birgja að rekstrinum þá hefur það ekki komið til tals," sagði Egill.