Greiningadeild Landsbankans spáir því að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á seinni hluta þessa árs en fram að því verði stýrivextir óbreyttir.

Þetta kemur fram í nýrri stýrivaxtaspá Greiningadeildarinnar.

„Seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum vegna ótvíræðra merkja um minnkandi eftirspurn og kólnun á húsnæðismarkaði. Gengisþróun krónunnar og vísbendingar um þróun eftirspurnar á næstu vikum og mánuðum ræður því hvenær vaxtalækkunarferlið hefst. Við reiknum með að það verði á seinni árshelmingi,“ segir í spá Greiningadeildar Landsbankans.

Þá er greint frá því að fasteignaverð lækkaði um 1,7% í maí og er nú 3% lægra en fyrir hálfu ári.

„Frá sjónarhóli peningastefnunnar er þessi lækkun kærkomin. Allra nýjustu vísbendingar um einkaneyslu, þ.e. kortavelta, dagvöruvelta og nýskráningar bíla, benda til þess að eftirspurn sé farin að dragast saman,“ segir Greiningadeildin.

„Þessu til viðbótar virðast kjarasamningar frá því í febrúar hafa haft minni áhrif til launahækkunar en við reiknuðum með. Allt þetta eru vísbendingar um að verðbólga muni fara minnkandi og styður við ákvörðun bankans um óbreytta vexti þrátt fyrir að undirliggjandi verðbólga sé enn veruleg til  skemmri tíma.“

Lækkun á seinni árshelmingi

Greiningadeildin segir að eftir um það bil hálft ár ætti minnkandi innlend eftirspurn að hafa leitt til meiri slaka á vinnumarkaði.

„Auk þess verður mánaðartaktur verðbólgunnar kominn vel niður fyrir það sem samrýmist verðbólgumarkmiði, þótt hækkun liðinna 12 mánaða mælist enn í tveggja stafa tölu. Þegar horft er 12 mánuði fram í tímann, má gera ráð fyrir að verðbólga verði 4-5%. Þróun næstu mánaða ræður því hvenær vaxtalækkunarferlið hefst, en við höldum stýrivaxtaspá okkar óbreyttri og reiknum með að það verði í nóvember,“ segir Greiningadeild Landsbankans.

Samkvæmt því verða stýrivextir um 14,75% í lok árs og 9% í lok næsta árs.

Hér má lesa stýrivaxtaspánna í heild sinni. (pdf skjal)